föstudagur 10. september 2010

Haustönnin hafin af fullum krafti

Í september hefur sannarlega færst líf og fjör í Háskólasetur Vestfjarða, enda er haustönnin farin af stað með öllu sem því tilheyrir og nemendur sitja í öllum hornum. Mikil fjölgun hefur orðið í Háskólasetrinu frá síðustu önn. Nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun eru nú alls fjörtíu og þrír, þar af tuttugu og fimm nýnemar. Fjarnemum hefur einnig fjölgað en nú í haust eru fjöldi nemda að hefja fjarnám í hinum ýmsu greinum við háskóla landsins.

Tólf eru að hefja fjarnám í sálfræði, sem er nú í fyrsta sinn í boði í fjarnámi og aðeins á Ísafirði en þetta fyrirkomulag er tilraunaverkefni við Háskólann á Akureyri. Einnig er nú í fyrsta skipti í boði fjarnám í verkfræði með þremur nemendum sem allir útskrifuðustu úr frumgeinanámi við Háskólasetrið í janúar síðastliðnum. Verkfræðinámið stunda þeir við Háskólann í Reykjavík en þetta fjarnám er einnig tilraunaverkefni og er aðeins í boðið á Ísafirði í vetur. Auk þessara tveggja nýju fjarnemahópa er fjöldi fjarnema sem nýta sér aðstöðuna í Háskólasetrinu, bæði nýir nemendur og nemendur sem eru að halda áfram námi. Þar má nefna hjúkrunarfræðinema, kennarafræðinema og viðskiptafræðinema við Háskólann á Akureyri sem allir sækja tíma í gegnum fjarfundarbúnað í Háskólasetrinu. Auk þess eru tugir nemenda á væðinu sem stunda nám í ýmsum greinum við háskóla landsins án þess að þurfa að sækja tíma í Háskólasetrið. Í haust er ánægulegt að sjá að þessir nemendur eru meira áberandi í Háskólasetrinu og nota þeir aðstöðu þess til náms og verkefnavinnu.

Í haust heldur samstarf Háskólasetursins við Háskólann í Reykjavík áfram um kennslu fyrstu annar frumgreinanáms HR en Háskólasetrið sér alfarið um fjarnámskennslu annarinnar. Fyrri staðarlota annarinnar fór fram um síðustu helgi en hún var haldin í fjarfundi frá Ísafirði til Reykjavíkur og Reyðarfjarðar. Síðari staðarlotan verður svo haldin í október en þá munu nemendurnir koma á Ísafjörð og hitta kennarana.

Námsaðstaða og kennslurými Háskólasetursins eru þétt setin þessa dagana og mikið líf í húsinu.
Námsaðstaða og kennslurými Háskólasetursins eru þétt setin þessa dagana og mikið líf í húsinu.