fimmtudagur 22. september 2022

Haustdagskrá átaksins "Íslenskuvænt samfélag – Við erum öll almannakennarar"

Háskólasetur Vestfjarða, Fræðslumiðstöð, Ísafjarðarbær ásamt fjölda einstaklinga tóku sig saman í vor og hrintu af stað átakinu Íslenskuvænt samfélag – Við erum öll almannakennarar. Átakið snýr að þeim sem vilja nota íslensku: Þau sem kunna málið nú þegar þurfa að læra að tala hægt og skýrt og temja sér þolinmæði, þau sem enn kunna lítið í málinu en vilja læra það þurfa á hverju tækifæri að halda til að beita því.

 

Átakið hófst í maí með vel sóttu málþingi á Ísafirði, og við tók fjöldi af uppákomum síðan þá. Nú kynnir átakið haustdagskrá fram í nóvember í samstarfi við m.a. Ferðafélag Ísfirðinga, Veturnætur og Tónlistarskóla Ísafjarðar.

 

Fyrsta uppákoman verður allra síðasta ferð Ferðafélagsins í haust og verður passað upp á það að íslenskan fái veglegt hlutverk þar, með það í huga að þau sem eru að læra hana geti fylgst með.

 

Átakinu mun svo ljúka í bili með Degi íslenskrar tungu í nóvember.

 

Haustdagskrána í heild má finna hér til hægri, en hver dagskrárliður verður tilkynntur sérstaklega.

 

Hvatt er til þátttöku almennings og er opið fyrir tillögur og beinast þær til Ólafs Guðsteins Kristjánssonar, sem hefur verið umsjónarmaður sumarnámskeiða fyrir skiptinema hjá Háskólasetri síðustu árin sem og kennari á þeim námskeiðum frá 2010. Auk þess er Ólafur Guðsteinn kennari hjá Fræðslumiðstöð og Háskóla Íslands og mesti hvatamaður inn á bak við átakið.

 

 


Haustdagskrá
Haustdagskrá