miðvikudagur 28. nóvember 2012

Háskólinn í Alaska heimsækir Háskólasetrið

Ófærð og vont veður fæla fólk frá Norðurslóðaháskólanum ekki frá Vestfjörðum, þvert á móti. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er sendinefnd frá Háskólanum í Alaska í heimsókn á Íslandi og hefur hún ákveðið að skreppa vestur og heimsækja Háskólasetrið.

Metnaðarfull dagskrá nefndarinnar fer vissulega einkum fram í Reykjavík og á Austurlandi, með heimsóknum í ráðuneyti, á Bessastaði og í Kárahnjúkarvirkjun. Í sendinefndinni eru bæði fulltrúar frá Institute of the North og University of Alaska Fairbanks en báðar stofnanir eru virkir meðlimir í Norðurslóðaháskólanum. Þeim þótti því full ástæða til að hitta íslenska meðlimi í Norðurslóðaháskólanum, en Háskólinn á Akureyri og Háskólasetur Vestfjarða hafa verið einna virkustu íslensku meðlimir samstarfsnets Norðurslóðaháskólans undanfarin ár. Eins og alþekkt er getur verið vandkvæðum bundið að ferðast vestur á þessum árstíma fyrir stutta heimsókn, einkum þegar millilandaflug eru í húfi, en Alaskabúar láta sér greinilega fátt um finnast og vilja kynnast Vestfjörðum, ekki síst vegna stöðu orkumála hér á svæðinu. Væntanlega hafa Alaskabúar meira upp úr því að bera sig saman við Vestfirði en við Reykjavík og ekki ólíklegt að það gildir líka á hinn veginn.

Þar sem dagskrá hópsins þétt hefur hann ákveðið að koma í heimsókn vestur sunnudaginn 2. desember. Gwen Holdmann, forstöðumaður orkustofnunarinnar Háskólans í Fairbanks/Alaska heldur erindi fyrir nemendur hjá Háskólasetri og aðra áhugasama undir yfirskriftinni „Energy Issues and Opportunities in Alaska" sunnudginn, 02.12.2012, kl. 17:00, Háskólasetri.

Vonandi verður vetrarstilla um helgina svo sendinefndin frá Alaska eigi auðvelt með að ferðast vestur.
Vonandi verður vetrarstilla um helgina svo sendinefndin frá Alaska eigi auðvelt með að ferðast vestur.