Háskólasetur skrifar undir samning við Háskólann í Reykjavík
Fimmtudaginn 15. nóvember skrifaði Háskólasetur Vestfjarða undir samning um frumgreinanám við Háskólann í Reykjavík. Samningurinn felur í sér að frumgreinanám Háskólans í Reykjavík verður kennt við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði. Námið verður kennt í dagskóla og er ætlað fólki sem ekki hefur stúdentspróf til þess að auka möguleika þess á því að komast í háskólanám. Frumgreinanám HR er fyrst og fremst undirbúningur fyrir frekara nám í tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík en hins vegar gefur frumgreinaprófið nemendum mjög góða möguleika á því að komast inn í annað háskólanám þar sem hér er um mjög gott alhliða undirbúningsnám að ræða. Frumgreinanám Háskólans í Reykjavík byggir á áratuga reynslu þar sem námið byggir á grunni frumgreinanáms Tækniskóla Íslands sem síðan varð Tækniháskóli Íslands og er nú hluti af Háskólanum í Reykjavík. Háskólasetrið er þegar farið að taka við umsóknum frá væntanlegum nemendum og er vonast til að hægt verði að mynda sterkan og góðan hóp frumkvöðla sem vilja ríða á vaðið í fullt nám. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér námið frekar er bent á að skoða upplýsingar um námið hér á heimasíðu Háskólasetursins eða hafa samband við Mörthu Lilju Olsen, þjónustu- og kennslustjóra setursins.