fimmtudagur 4. október 2007

Háskólasetur og Háskólinn á Akureyri skrifa undir viljayfirlýsingu

Laugardaginn 8. september hélt Háskólinn á Akureyri upp á 20 ára afmæli skólans. Á þessum tímamótum skrifuðu forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, Peter Weiss, og rektor Háskólans á Akureyri, Þorsteinn Gunnarsson, undir viljayfirlýsingu. Í viljayfirlýsingunni lýsir Háskólinn á Akureyri því yfir að skólinn taki að sér að hýsa nýja námsleið Háskólaseturs Vestfjarða í haf- og strandsvæðastjórnun. Í þessu felst að nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða verða formlega innritaðir í Háskólann á Akureyri og útskrifast með gráðu þaðan en námið fer að öllu leyti fram við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði og verður að öllu leyti í umsjón Háskólaseturs Vestfjarða. Háskólinn á Akureyri tryggir gæðaeftirlit með námsleiðinni og viðurkennir námið sem fullgilt meistaranám.

Án þess að nám sé viðurkennt hjá viðurkenndum háskóla telst það ekki fullgilt. Slíkt nám væri erfitt að fjármagna, það væri ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og væri útskrift úr óviðurkenndu námi ekki mikils virði fyrir nemendurna. Samkvæmt háskólalögum þurfa þeir sem bjóða upp á háskólanám að fara í gegnum ákveðið viðurkenningarferli til að tryggja að gráður sem veittar eru í íslenskum háskólum standist alþjóðasamanburð.

Námsleiðin í Haf- og strandsvæðastjórnun hefur verið þróuð hjá Háskólasetrinu undanfarna mánuði. Um er að ræða alþjóðlegt, þverfaglegt 120 ECTS-nám á meistarastigi, kennt í þriggja vikna lotum til að geta laðað að gestakennara, þegar þess er þörf. Stefnt er að því að byrja haustið 2008 með 15 námsmönnum. Námið er ekki sjávarútvegsfræði í þröngri merkingu, heldur gengur það út á stjórnun haf- og strandsvæða út frá víðu sjónarhorni. Fleiri námsleiðir byggðar á þessu mynstri eru í undirbúningi um þessar mundir.

Viljayfirlýsingin sem skrifað var undir á laugardag færir því Háskólasetur Vestfjarða töluvert nærri markmiði sínu að verða Háskóli Hafsins.

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá þá Þorstein Gunnarsson rektor HA og Peter Weiss forstöðumann HSvest skrifa undir viljayfirlýsinguna og handsala hana að lokinni undirskrift.

Við undirskrift
Við undirskrift