föstudagur 2. mars 2012

Háskólasetur Vestfjarða nýtt aðildarsafn í Gegni

Háskólasetur Vestfjarða er þessa dagana að innleiða Gegni, samskrá íslenskra bókasafna, fyrir safnkost sinn ásamt nokkrum öðrum bókasöfnum hér á norðanverðum Vestfjörðum, þ.e. Bæjar- og héraðsbókasafninu og Skólasafni Grunnskólans á Ísafirði og Bókasafni Bolungarvíkur. Háskólasetrið hefur fram til þessa verið í samstarfi við Bæjar- og héraðsbókasafnið og fengið að skrá gögn sín í bókasafnskerfið Micromarc, sem nú er verið að taka úr notkun.

Gegnir þykir mun fýsilegri kostur enda eru flest bókasöfn landsins aðilar að honum, svo sem flest almenningsbókasöfn, öll háskólabókasöfn, bókasöfn framhaldsskóla og bókasöfn hjá ýmsum opinberum stofnunum, alls eru þetta rúmlega 300 söfn. Aðild að Gegni mun því gera safnkost Háskólaseturs sem og hinna safnanna hér á svæðinu mun sýnilegri og aðgengilegri en áður var.
Safnkostur Háskólaseturs Vestfjarða er ekki stór, en fer ört vaxandi og er mjög sérhæfður. Um 80% af þeim gögnum sem eru í eigu safnsins tengjast meistaranáminu Haf- og strandsvæðastjórnun. Má í því samhengi nefna að stór hluti þessar gagna hefur ekki áður verið skráður í Gegni áður, eða um 40%, sem sýnir hversu sérhæft safnið er. Pernilla Rein, starfsmaður háskólaseturs hefur umsjón með safninu.

Gegnir var fyrst opnað í maí 2003 og með innleiðingu þess var hægt að sameina gögn úr nokkrum eldri söfnum í eina samskrá. Landskerfi bókasafna hf, sem er í eigum ríkisins og sveitarfélaga, á og rekur Gegni. Kerfið byggir á bókasafnskerfinu Aleph 500 frá fyrirtækinu Ex Libris. Um er að ræða biðlara-miðlara kerfi keyrt á Oracle gagnagrunnskerfi og byggt það á ríkjandi stöðlum, svo sem Z39.50, Unicode og MARC 21. Aleph 500 kerfi eru í dag notuð hjá a.m.k. 1.650 viðskiptavinum í yfir 50 löndum. Meðal viðskiptavina eru mörg þekkt bókasöfn og má þar nefna British Library og Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn.

Sjá einnig Landskerfi bókasafna.

Nemar í haf- og strandsvæðsstjórnun við bókakost námsins.
Nemar í haf- og strandsvæðsstjórnun við bókakost námsins.