þriðjudagur 18. nóvember 2008

Háskólasetur Vestfjarða hlýtur frumkvöðlaverðlaun Ísafjarðarbæjar

Í dag hlaut Háskólasetur Vestfjarða Virðisaukann, frumkvöðlaverðlaun Ísafjarðarbæjar, sem atvinnumálanefnd bæjarins veitt nú í sjötta skipti. Það var Birna Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar sem afhenti Peter Weiss forstöðumanni verðlaunin í hádeginu í dag þegar Háskólasetrið og aðrar stofnanir Vestrahússins buðu til opins húss í tilefni þess að framkvæmdum við stækkun og breytingar er að ljúka.

Í rökstuðningi atvinnumálanefndar Ísafjarðarbæjar kom meðal annars fram að við veitingu verðlaunanna sé tekið tillit til framlags til eflingar og aukins fjölbreytileika á sviði atvinnu, menntunar og afþreyingar. Jafnframt er tekið tillit til aukins sýnileika bæjarfélagsins á landsvísu eða sérstaks árangurs á sviði þróunar vöru, þjónustu eða markaðssetningar. Í rökstuðningnum segir ennfremur: „Það er niðurstaða atvinnumálanefndar að með hliðsjón af þessu sé Háskólasetur Vestfjarða vel að þessum verðlaunum komið. Þetta er ung stofnun, aðeins þriggja ára gömul, og byggð á góðum grunni. Hún byrjaði smátt en hefur vaxið mjög á síðustu árum. Þar starfa níu manns ásamt stundakennurum og eru því alls sautján stöðugildi við setrið."

Verðlaunin eru Háskólasetrinu afar mikilvæg og munu þau án efa hvetja starfsmenn og stjórn setursins til að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið þau fáu ár sem setrið hefur starfað.

Peter Weiss tekur við Virðisaukanum úr hendi Birnu Lárusdóttur
Peter Weiss tekur við Virðisaukanum úr hendi Birnu Lárusdóttur