fimmtudagur 8. september 2011

Háskólasetrið tekur þátt í aðalfundi Aqua-Tnet verkefnisins

Nú fer fram aðalfundur Aqua-Tnet Sókrates verkefnisins, um fiskeldi, fiskveiðar og sjávartengda auðlindastjórnun, í Faro í Portúgal. Háskólasetur Vestfjarða er aðili að verkefninu og sækir Dr. Peter Weiss, forstöðumaður fundinn fyrir þess hönd. Einnig fer þar fram fundur vinnuhóps innan verkefninsin sem fjallar um að koma á fót og efla meistaranáms á sviði fiskeldis. Þar verður lögð sérstök áhersla á að auka hreyfanleika nemenda í gegnum samræmingu meistaraprófsrirtgerða, möguleika og vandamál er varða samvinnu nemenda við atvinnugreinina og aðkomu hagsmunaaðila að nýbreytni í kennslu í fiskeldi og tengdum greinum.

Á leiðinni á fundinn í Portúgal gafst Peter Weiss tækifæri til að funda í Reykjavík með fulltrúum frá Norðurslóða háskólanum (UArctic) og Hafrannsóknarklasa Bergen í Noregi, ásamt Hreiðari Þór Valtýssini, lektor við Auðlindadeild Háskólans á Akureyrir. Fjölmargir fulltrúar Norðurslóða háskólans eru nú staddir á Íslandi til að taka þátt í Rannsóknarþingi norðursins (Northern Research Forum) „Okkar ísháða veröld" sem nú fer fram í Hveragerði. Þeirra á meðal eru Lars Kullerud, forseti UArctic og Outi Snellman aðalritari.

Einnig sækir Øystein Paasche, frá Hafrannsóknarklasa Bergen ráðstefnuna. En rannsóknarklasinn hefur áhuga á að taka þátt í hinu nýstofnaða samstarfsneti Norðurslóðaháskólans á sviði haf- og strandsvæðastjórnunar, sem Háskólasetrið og Háskólinn á Akureyri leiða.

Þorskeldiskví á Vestfjörðum.
Þorskeldiskví á Vestfjörðum.