miðvikudagur 23. febrúar 2011

Háskólamenntun og byggðaþróun

Í Vísindaporti föstudaginn 25. febrúar mun Anna Guðrún Edvardsdóttir kynna doktorsritgerð sem hún vinnur að um tengsl háskólamenntunar og byggðaþróunar. Líkt og fyrr hefst Vísindaportið kl. 12.10, það fer fram í kaffisal Háskólaseturs og er opið öllum.

Í rannsókn sinni kannar Anna Guðrún þá menntunarlegu, samfélagslegu og pólitísku orðræðu sem birtist þegar rætt er um eflingu háskólamenntunar á landsbyggðinni frá árinu 1990 og til dagsins í dag. Einnig er kannað hvort og þá hvaða þættir það eru í uppbyggingu háskólamenntunar á landsbyggðinni sem hafa áhrif á byggðaþróun auk sjálfbærni samfélaga. Mikilvægt er að slík rannsókn sé gerð því þrátt fyrir mikla uppbyggingu háskólamenntunar á landsbyggðinni er fólksfækkun enn til staðar og því má spyrja hver þáttur háskólamenntunar á landsbyggðinni sé í byggða- og atvinnuþróun í raun og veru. Í rannsókninni eru tekin viðtöl við einstaklinga sem starfa í háskólageiranum, kennara, stjórnendur og nemendur á landsbyggðinni, pólitísk kjörna fulltrúa, þ.e. sveitastjórnarmenn, alþingismenn, ráðherra auk starfsmanna ráðuneyta og stofnana á vegum ríkisins er starfa á sviði háskóla- og byggðamála bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þá eru einnig könnuð og greind ýmis opinber gögn stjórnvalda og háskólastofnana á þessu tímabili. Einnig er háskólamenntun og byggðaþróun í Skotlandi borin saman við Ísland, því aðstæður er svipaðar og hér á landi.

Haustið 2010 dvaldi Anna Guðrún í rannsóknarleyfi við Lews Castle College á Isle of Lewis í Skotlandi en sá skóli er hluti af University of Highlands and Islands. Um er að ræða háskóla sem samanstendur af 13 samstarfsaðilum, bæði háskólum og rannsóknarstofnunum í skosku hálöndunum.

Í erindinu á föstudag mun Anna Guðrún kynna þann hluta rannsóknar sinnar sem snýr að niðurstöðum viðtala sem hún tók, bæði hér á Vestfjörðum og í Skotlandi.

Anna Guðrún Edvardsdóttir er doktorsnemi við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Aðalleiðbeinandi hennar er Allyson Macdonald en auk hennar eru Börkur Hansen og Frank Rennie við Lews Castle College meðleiðbeinendur. Anna Guðrún er fæddur og uppalin Reykvíkingur en hefur búið í Bolungarvík í 23 ár. Hún er menntaður kennari, starfaði sem slíkur í Bolungarvík og var skólastjóri við Grunnskóla Bolungarvíkur í nokkur ár. Þá hefur hún unnið að ýmsum verkefnum fyrir Náttúrustofu Vestfjarða, kennir í fjarnámi dönsku í frumgreinanáminu við Háskólann í Reykjavík og kennir ensku við Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Anna Guðrún er bæjarfulltrúi í Bolungarvík og hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum á þeim vettvangi, bæði fyrir Bolungarvík og einnig fyrir Vestfirði í heild, m.a. verið formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og er formaður stjórnar Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.

Starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða er liður í því að efla háskólanám á landsbyggðinni. Á myndinni má sjá fyrstu útskriftarnema meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólasetrinu sem útskrifuðust síðastliðið sumar. Meistaranámið er fyrsta staðbunda háskólanámið sem er alfarið kennt á Vestfjörðum. Með nemendunum á myndinni eru Stefán B. Sigurðsson, rektor HA, Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða. Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson.
Starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða er liður í því að efla háskólanám á landsbyggðinni. Á myndinni má sjá fyrstu útskriftarnema meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólasetrinu sem útskrifuðust síðastliðið sumar. Meistaranámið er fyrsta staðbunda háskólanámið sem er alfarið kennt á Vestfjörðum. Með nemendunum á myndinni eru Stefán B. Sigurðsson, rektor HA, Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða. Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson.