föstudagur 20. júní 2014

Háskólahátíð á Hrafnseyri

Á þjóðhátíðardaginn, þann 17. júní síðastliðinn, hélt Háskólasetur Vestfjarða að venju háskólahátíð á Hrafnseyri í samstarfi við Safn Jóns Sigurðssonar á staðnum. Þetta er í fimmta sinn sem Háskólasetrið heldur slíka hátíð til að fagna útskrift háskólanema á Vestfjörðum.

Í ár útskrifuðust sextán nemendur úr meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun með MRM gráðu frá Háskólanum á Akureyri. Stór hópur útskriftarnemenda var viðstaddir hátíðina, eða þrettán nemendur, auk eins nemanda frá fyrra ári sem tók þátt í hátíðinni. Þetta verða að teljast góðar heimtur þar sem flestir nemendanna eru fluttir af landi brott fyrir nokkru síðan. Auk meistaranemanna útskrifaðist einn fjarnemi með BA gráðu í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri.

Þær Chelsea Boaler og Râna Campbell fluttu ávörp fyrir hönd útskriftarnema og hélt sú síðarnefnda hluta ávarpsins á íslensku. Fyrir hönd kennara hélt Áslaug Ásgeirsdóttir ávarp en einnig tóku til máls Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs og Stefán B. Sigurðsson rektor Háskólans á Akureyri.

Formleg útskrift meistaranema og fjarnema frá Háskólanum á Akureyri fór fram þann 14. júní síðastliðinn en líkt og undanfarin ár fengu allir nemendurnir prófskírteini sín afhent formlega úr hendi Stefáns B. Sigurðssonar rektors HA á Hrafnseyri. Stefán lætur af embætti rektors þann 1. Júlí næstkomandi og var þetta því næst síðasta embættisverk hans, en síðar í vikunni gegndi hann því síðasta sem fólst í móttöku sænsku prinsessunar við HA.

Háskólasetur Vestfjarða óskar öllum útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann sem var staðfestur á Hrafnseyri þann 17. júní.