miðvikudagur 19. mars 2014

Hamingja fyrir sem flesta – Vísindaport og málþing 21. mars 2014

Í tilefni af alþjóðlega hamingjudeginum býður Háskólasetur Vestfjarða velkominn í Vísindaport, Dr. Ruut Veenhoven. En hann er virtur hollenskur vísindamaður í hamingjurannsóknum. Ruut Veenhoven mun í þessum Vísindaportsfyrirlestri taka fyrir viðfangsefnið: ,,Hamingja fyrir sem flesta: Hvernig er hægt að ná því?”

Þegar fyrirlestrar sem Ruut hefur haldið á undanförnum árum eru skoðaðir koma fram mörg mjög áhugaverð viðfangsefni. Því var ákveðið að láta ekki staðar numið strax að loknu Vísindaporti, heldur bjóða áhugasömum upp á málþing þar sem Ruut mun fara dýpra í ákveðna þætti. Svo sem áhrif innkomu eða menntunar á hamingju, ásamt því að fara yfir þá tækni sem notuð er við hamingjurannsóknir. Þar má nefna ,,Happiness Monitor” og ,,World Database of Happiness”. Að sjálfsögðu vonumst við til að hamingjusamir íslendingar verði virkir þátttakendur í málþinginu með spurningar til hamingjuprófessorsins sem og viljugir til að svara fyrirspurnum hans.

Dr. Ruut Veenhoven (1942) er félagsfræðingur að mennt og hefur verið kallaður ,,guðfaðir hamingjurannsókna". Hann er heiðursprófessor við Erasmus University í Rotterdam og hefur fengið margar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar. Nú um þessar mundir rannsakar Ruut huglæg lífsgæði. Ruut hefur gefið út nokkrar bækur og þar má nefna; Conditions of Happiness (1984), Happiness in Nations (1993), The Four Qualities of Life (2000) and Greater Happiness for a Greater Number: Is That Possible and Desirable? (2010). En einnig hafa birst greinar eftir hann um fóstureyðingar, ást, hjónaband og það að vera foreldri.Dr. Ruut Veenhoven er stofnandi stærsta gagnabanka um mælingar á hamingju í heiminum (The World database of happiness) og fyrrum ritstjóri og stofnandi tímaritsins „The Journal of Happiness Studies".

Vísindaportið hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs. Vakin er athygli á að fyrirlesturinn er háður flugi á föstudagsmorguninn. Málstofan mun svo verða í beinu framhaldi af Vísindaporti og standa fram til 15:00. Vísindaportið verður á ensku að þessu sinni.