fimmtudagur 29. mars 2012

Hákarlarannsóknir við Háskólasetrið

Vincent Gallucci, prófessor í við University of Washington hefur dvalið við Háskólasetrið undanfarna mánuði við rannsóknir og kennslu. Prófessor Gallucci sérhæfir sig í verndun, stjórnun og stofnstærðarmælingum brjóskfiska, einkum hákarla. Hann hefur rannsakað hákarla um víða veröld en hefur einkum stundað rannsóknir í kyrrahafinu, allt frá miðbaug norður undir Alaska.

Algengasti hákarlinn við strendur Íslands (Somniosus microphalus) á sér hliðstæða tegund í Kyrrahafinu sem gjarnan er nefndur svefnhákarl, eða Sleeper shark (Somniosus pacificus), en þessi hákarlategund hefur verið eitt megin rannsóknarefni prófessor Gallucci að undanförnu. „Það sem mig langar að gera er að nýta mér líkindi þessara tveggja tegunda sem finnast bæði í norður Atlantshafinu og í Kyrrahafinu. Sýnin sem ég fæ úr hákarlinum við strendur Íslands geta nýst til þess að þróa líkön sem munu hjálpa okkur að skilja Kyrrahafs hákarlinn betur", segir prófessor Gallucci.

Sjómenn á Ísafirði hafa verið afar hjálpsamir og safnað sýnum af kynkirtlum kvendýra sem hafa veiðst við Vestfirði. Sýnunum hefur svo verið komið til rannsóknarstofu Hafrannsóknarstofnunar á Ísafirði sem hefur veitt prófessor Gallucci aðstöðu til að kryfja og rannsaka sýnin.

Hákarlinn við strendur Íslands er ekki eina áhugaefni prófessor Gallucci þessa dagana. Í næstu viku verður hann á Ítalíu þar sem hákarlar í Miðjarðarhafinu og rannsóknir á þeim verða viðfangefni hans áður en hann snýr aftur á Ísafjörð til að huga að fleiri sýnum sem vonandi safnast upp á meðan.

Prófessor Gallucci við athugun á sýnum úr hákörlum sem veiddust við Vestfirði ásamt nemendum í haf- og strandsvæðastjórnun.
Prófessor Gallucci við athugun á sýnum úr hákörlum sem veiddust við Vestfirði ásamt nemendum í haf- og strandsvæðastjórnun.