fimmtudagur 25. nóvember 2010

Haffræði íslenskra fjarða

Steingrímur Jónsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, heldur erindi um haffræði íslenskra fjarða í Vísindaporti föstudaginn 26. nóvember. Steingrímur dvelur á Ísafirði þessa dagana og kennir hluta af námskeiðinu Physical Processes of Coastal and Marine Environments, í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun. Vísindaportið fer fram í kaffisal Háskólaseturs og hefst kl. 12.10. Erindið fer fram á ensku.

Að suðurströnd Íslands frátalinni einkennist strandlengja landsins af flóum og fjörðum af ólíkum stærðum og gerðum. Á síðastliðinni öld, og þessari öld, hafa þessi svæði orðið fyrir auknum ágangi af mannavöldum sem aftur leiðir til þarfar fyrir aukinni þekkingaröflun um lífríki fjarðanna. Síðastliðna tvo áratugi hafa haffræðilegar rannsóknir verið framkvæmdar í nokkrum íslenskum fjörðum, einkum til að meta möguleg áhrif iðnaðar eða fiskeldis á þá. Lykilatriði þegar kemur að því hve vel svæðin ráða við aukinn ágang og hve vel þau þola fiskeldi er hringrás fjarðanna. Rannsóknir síðustu tveggja áratuga hafa leitt í ljós nokkra sameiginlega þætti hringrásar ólíkra fjarða og verður sjónum einkum beint að því í erindinu.