mánudagur 16. júní 2008

Hádegistónleikar Háskólaseturs og Við Djúpið

Háskólasetur Vestfjarða og tónlistarhátíðin Við Djúpið standa að fernum hádegistónleikum í Bryggjusal Edinborgarhússins klukkan 12:10 dagana 18. 19. 20. og 23. júní. Hádegistónleikaröðin er nokkurskonar sambland fyrirlestra og tónlistarflutnings, því auk þess að flytja tónverk munu tónlistarmennirnir ræða verkin og höfundana sem eru á efnisskránni hverju sinni. Þetta er einstakt tækifæri til að hlýða á verk og jafnframt fá innsýn í vinnuferli tónlistarmannanna hugleiðingar þeirra og sýn á viðfangsefnin.


Berglind María Tómasdóttir flautuleikari ríður á vaðið miðvikudaginn 18. júní og kynnir íslenska flaututónlist fyrir gestum. Á efnisskránni eru m.a. verk eftir Atla Heimi Sveinsson og Þorkel Sigurbjörnsson ásamt verkum eftir yngri tónskáld líkt og Guðmund Stein Gunnarsson, auk þess sem Berglind frumflytur verkið Failure II eftir Davíð Brynjar Franzson. Á öðrum tónleikum raðarinnar flytur Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari valda kafla úr verkinu 20 hugleiðingar um Jesúbarnið eftir Olivier Messiaen og kynnir jafnóðum það sem fyrir eyru ber, en um þessar mundir æfir hún þetta merkilega verk. Hinn margverðlaunaði norski píanóleikari Håkon Austbø tileinkar landa sínum Edvard Grieg þriðju hádegistónleika raðarinnar. Hann mun leika hluta úr op. 66 og 72 eftir Grieg og um leið setja hina norsku þjóðlagahefð í evrópskt samhengi, líkt og Grieg gerði fyrstur manna. Lokatónleikar raðarinnar eru tileinkaðir fiðlutónlist á 20. öld en þá leiða saman hesta sína þær Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari og Tinna Þorsteinsdóttir píanóleikari. Efnisskráin er fjölbreytt með sónötu fyrir fiðlu og píanó eftir jazztónlistarmanninn Keith Jarret og pólska tónskáldið Witold Lutoslawski og Íslenskri hugleiðingu fyrir fiðlu eftir Karólínu Eiríksdóttur.