þriðjudagur 29. janúar 2008

Hádegisfyrirlestur um skipulagsmál

Í hádeginu miðvikudaginn 30. janúar mun Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skipulagshagfræðingur halda fyrirlestur um skipulagsmál hjá Háskólasetri Vestfjarða. Í spjalli sínu mun Sigmundur Davíð beina sjónum sínum sérstaklega að Ísafirði enda ber fyrirlesturinn yfirskriftina „Skipulagsmál skipta sköpum - Ísafjörður bær tækifæranna"


Fyrirlesturinn er öllum opinn og hefst rétt rúmlega tólf og fer fram í kaffisal Háskólaseturs.


Sigmundur Davíð lauk námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hluta námsins tók hann í Moskvu þar sem áhersla var lögð á þróunarhagfræði (þ.e. hagkerfi í þróun). Einnig stundaði hann nám í stjórnmálafræði við Kaupmannahafnarháskóla með áherslu á opinbera stjórnsýslu. Frá Kaupmannahöfn hélt Sigmundur Davíð til framhaldsnáms við Oxfordháskóla í Bretlandi þar sem hann vann doktorsrannsókn um samspili skipulagsmála og hagfræði. Rannsóknarverkefnið fjallaði um þróun borga í Austur- og Mið-Evrópu frá falli kommúnismans. Auk þess hefur Sigmundur Davíð starfað hjá Sjónvarpinu sem frétta- og dagskrárgerðarmaður.