HA með vinnuaðstöðu á Vestfjörðum
Nú um mánaðamótin tekur í gildi samningur milli Háskólans á Akureyri og Háskólaseturs Vestfjarða um fasta vinnuaðstöðu í Vestrahúsi. Háskólinn á Akureyri hefur því til afnota litla skrifstofu í húsnæði Háskólaseturs sem starfsfólk UNAK getur nýtt sér ef það vill dvelja á Vestfjörðum um lengri eða skemmri tíma.
Þessi tilhögun kemur sér vel þar sem þegar er mikið samstarf á milli UNAK og UW og gott fyrir starfsfólk beggja stofnana að hittast augliti til auglitis þótt tæknin geri flestum kleift að starfa saman landshluta á milli. Tvær starfskonur UNAK riðu á vaðið í upphafi vikunnar, þær Hildur Friðriksdóttir, alþjóðafulltrúi, og Bára Sif Sigurjónsdóttir, forstöðukona nemendaskrár, og var tímasetningin tilvalin þar sem Háskólasetur opnar fyrir umsóknir 1. desember og að mörgu að hyggja við undirbúninginn sem Bára og Astrid kennslustjóri gátu sest yfir saman.
Hildur og Bára létu vel af verunni og sögðust áreiðanlega koma aftur en þá ætluðu þær að punta skrifstofuna aðeins til að gera hana hlýlegri. Þær gátu nýtt tækifærið og sótt málþing Stofnunar Ólafs Ragnar Grímssonar síðastliðinn mánudag og sjá mörg tækifæri í því að geta fært sig stöku sinnum um set og sinnt verkefnum hér á Ísafirði.
Yfirmaður þeirra, Eyjólfur Guðmundsson rektor, var einmitt meðal gesta á málþinginu og notaði tækifærið til að skrifa undir samninginn ásamt Peter Weiss, forstöðumanni Háskólaseturs.