fimmtudagur 9. september 2010

Grænlandssetur í Vísindaporti

Í Vísindaportinu föstudaginn 10. september næstkomandi kl. 12:10 mun Jónas Guðmundsson fjalla um áformað Grænlandssetur í Bolungarvík.

Fyrr á árinu var í Bolungarvík stofnað sérstakt undirbúningsfélag um stofnun setursins og Jónas kjörinn formaður stjórnar félagsins. Félagið hefur fengið aðstöðu fyrir starfsemi sína að Vitastíg 1 í Bolungarvík, sem var formlega tekin í notkun á þjóðhátíðar- og fullveldisdegi Grænlendinga 21. júní. Unnar hafa verið tillögur að hönnun setursins og uppsetningu sýningar.

Í umfjöllun sinni mun Jónas greina frá hugmyndum sínum um setrið, hvað þarf til að það verði að veruleika, þeim hugmyndum sem uppi er um starfsemi þess og framtíðarsýn. Einnig mun hann eftir því sem tími gefst til fjalla um þennan næsta nágranna okkar, landið og íbúa þess og samskipti og samskiptamöguleika íbúa þessara tveggja landa í náinni framtíð.

Jónas Guðmundsson er fæddur og uppalinn í Reykjavík og er lögfræðingur að mennt, Hann var skipaður sýslumaður í Bolungarvík 1990 og hefur búið þar síðan.

Vísindaportið fer fram í kaffisal Háskólaseturs, það hefst kl.12.10 og eru allir velkomnir.