föstudagur 11. maí 2007

Gísli trekkir

Gísla saga Súrssonar er meðal þekktustu Íslendingasagna. Enn þann dag í dag á Gísli marga aðdáendur. Í sumar munu nokkrir erlendir hópar heimsækja Háskólasetrið til námsdvalar, flestir frá Bandaríkjunum og Kanada, en meðal þess sem allir hóparnir munu sækja er tveggja daga dagskrá um Gísla sögu, með inngang, heimsókn í Haukadal, dagsferð í Geirþjófsfjörð undir leiðsögn staðkunnugra manna og einleikinn um Gísla eftir Elfar Loga Hannesson. Dagskráin er á ensku.

Nú hefur Háskólasetrið ákveðið að gefa almenningi, og ekki síst erlendum skiptinemum við háskóla fyrir sunnan, tækifæri að taka þátt í þessum ferðum og kynnast sagnaarfi og ekki síst Vestfjörðunum. Fyrsti hópurinn kemur nú í maí og er því fyrsta háskólaferð á slóðum Gísla sögu helgina 19./20. maí.