Gestir í heimsókn til Háskólasetursins
Það er alltaf gaman að fá góða gesti í heimsókn til Háskólasetursins, sérstaklega yfir sumarmánuðina þegar það er frekar tómlegt í húsinu og lítið að gera hjá okkur. Á sunnudaginn heimsótti okkur hópur menntaskólanema frá Bandaríkjunum sem eru að ferðast á vegum “New York Times Student Journeys”. “New York Times Student Journeys” býður upp á lærdómsríkar námsferðir til þeirra staða sem The New York Times hefur ritað um. Ferðirnar eru sérsniðnar fyrir forvitna nemendur á menntaskólastigi sem hafa sérstakan áhuga á að auka skilning sinn á ýmisskonar viðfangsefnum eins og loftslagsbreytingum, viðskiptum, tísku, stjórnmálum ofl.(sjá hér https://www.nytimes.com/times-journeys/students).
Þessi hópur er að heimsækja Vestfirði til að auka skilning sinn á endurnýjanlegri orku og áhrifum loftslagsbreytinga á afskekkt samfélög á norðurslóðum. Tryggvi Aðalbjörnsson, fyrrverandi blaðamaður hjá “The Times´s climate desk” var einnig í för með hópnum. Nemendur fengu að kynnast starfsemi Háskólasetursins og hlustuðu á skemmtilegan fyrirlestur um þær áskoranir sem við á Vestfjörðum þurfum að takast á við, eins og orku öryggi, áhrif loftslagsbreytinga, líðfræðilegar áskoranir, fjölgun ferðamanna (eða ekki) ofl. Einnig fengu þessir nemendur að hlusta á þrjá fyrirlestra um rannsóknir sem nú standa yfir á Vestfjörðum og eru framkvæmdar af þremur núverandi meistaranemum í Haf- og strandsvæðastjórnun hjá Háskólasetri Vestfjarða. Við hjá Háskólasetri Vestfjarða fögnum því að fá tækifæri til að taka á móti þessum ungu, einbeittu og kraftmiklu nemum og við vonumst til þess að geta haldið áfram þessu mikilvæga samstarfi með The New York Times í framtíðinni.