þriðjudagur 26. nóvember 2013

Gæðaviðurkenning fyrir íslenskunámskeið

Síðastliðinn föstudag fór fram uppskeruhátíð Evrópusamvinnu í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík. Á hátíðinni voru fimmtíu verkefni samstarfsáætlana ESB kynnt en þar á meðal var íslenskunámskeið fyrir skiptinema sem Háskólasetur Vestfjarða hefur haft umsjón með frá árinu 2008. Auk þess að kynna verkefnið hlaut Háskólasetrið gæðaviðurkenningu Menntaáætlunar ESB ársins 2012 fyrir verkefnið.

Íslenskunámskeið Háskólasetursins hófu göngu sína árið 2007 en árið 2008 tók Háskólasetrið við námskeiði fyrir erlenda skiptistúdenta sem stunda nám við íslenska háskóla. Námskeiðið hefur frá upphafi farið fram að Núpi í Dýrafirði þar sem nemendur hafa búið og numið í gamla héraðsskólanum sem nú er rekinn sem hótel á sumrin. Auk þess hafa nemendur sótt námskeið á Ísafirði og ferðast um næsta nágrenni í námstengdum ferðum.

Eins og fram kemur í viðurkenningunni hefur staðsetningin og námskeiðið sjálft mælst vel fyrir: „Dvölin á Núpi og á Ísafirði hefur verið mikil upplifun fyrir stúdentana og veitt þeim innsýn inn í íslenskt samfélaga sem fæstir hefðu annars notið. Sterk tengsl myndast innan hópsins á heimavistinni og margir stúdentar tilgreint að þau hafi verið ómetanleg.“ Þá kemur einnig fram í viðurkenningunni að gæði námsins og móttaka nemenda hafi verið til fyrirmyndar: „Öll árin hefur námsmat farið fram með sama hætti og framkvæmt af utanaðkomandi aðila. Árið 2008 var niðurstaðan mjög góð en hefur síðanorðið betri með hverju ári. Háskólasetur Vestfjarða hefur lagt mikinn metnað í að bjóða upp á faglegt nám og lagt alúð í að taka vel á móti stúdentum á námskeiðunum.“

Í þessari viðurkenningu felst mikil hvatning fyrir Háskólasetrið til að halda íslenskunámskeiðunum áfram og þróa enn frekar það starf sem hófst árið 2007.