þriðjudagur 24. júní 2014

Fyrsti vettvangsskólahópur sumarsins mættur

[mynd 1 h]Hópur 29 nemenda á vegum School for International Training (SIT) í Bandaríkjunum kom s.l. föstudagskvöld til Ísafjarðar. Þessi ungmenni munu næstu þrjár vikurnar dvelja hér á norðanverðum Vestfjörðum og er dvölin hluti af sjö vikna námsáfanga um orkutækni og auðlindastjórnun sem þau sitja hér, Iceland: Renewable Energy, Technology, and Resource Economics. Er þessi hópur sá áttundi sem Háskólasetrið tekur á móti á jafn mörgum árum.


Hópurinn hélt sem leið liggur í Háskólasetrið þar sem eftirvæntingarfullar fjölskyldur frá Ísafirði, Hnífsdal og Bolungarvík biðu þeirra. Þessar fjölskyldur hafa tekið að sér að hýsa nemendurna fyrstu tvær vikurnar. Gisting í heimahúsum er hluti af náminu og tækifæri til að kynnast betur þjóð og tungu, enda sitja nemendurnir einnig tíma í íslensku. Slík heimagisting er nú í boði í 3ja sinn og eru meðal gestgjafa nokkrar fjölskyldur sem hafa tekið þátt frá upphafi, sem er mjög ánægjulegt.


[mynd 2 h]Dagskrá nemendanna er nokkuð þétt næstu daga og mun kennsla fara fram í Háskólasetrinu. Einnig verður farið  í vettvangsferðir tengdar viðfangsefninu, í skoðunarferð á Hesteyri í Jökulfjörðum og á slóðir Gísla sögu Súrssonar.


Fagstjóri hópsins er í ár Astrid Fehling sem kennir við námsleiðina í Haf- og strandsvæðastjórnun, en hún er einnig fyrrverandi nemandi við sömu námsbraut. Sér til aðstoðar hefur hún þær stöllur Fríðu Óskarsdóttur og Guðrúnu Lilju Kristinsdóttur.

 

Við bjóðum hóp ársins kærlega velkomin til Ísafjarðar og vonum að dvölin hér verði í senn lærdómsrík og eftirminnileg.