fimmtudagur 13. október 2022

Fyrsti dagur á Arctic Circle ráðstefnunni

Þá er hin árlega ráðstefna, Hringborð Norðurslóða eða Arctic Circle Assembly, hafin í Hörpu í Reykjavík. Ráðstefnan er órjúfanlegur þáttur í skólaári Háskólaseturs Vestfjarða þar sem hún er hluti af námskeiðinuArctic Ocean Governance og einnig leggja fyrrverandi nemendur og fræðimenn Háskólaseturs jafnan eitthvað til málanna á ráðstefnunni. 

Á fyrsta deginum hélt Harmony Wayner erindi um sjálfbæran sjávarútveg í Alaska og á Íslandi. Harmony er nýútskrifuð með meistarpróf í Haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólasetri Vestfjarða og er varaformaður Arctic Youth Network.

Einnig kynnti Dr. Matthias Kokorsch, fagstjóri meistarnáms í sjávarbyggðafræði, rannsóknir sem Háskólasetur tekur þátt í með ClicNord og Kristin Weis, doktorsnemi við George Mason háskólann í Bandaríkjunum, hélt erindi um ferðamennsku og smærri byggðir en hún lauk meistaragráðu í Haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólasetri fyrir nokkrum misserum.

Nokkrir nemendur Háskólaseturs nota tækifærið og starfa sem sjálfboðaliðar á ráðstefnunni, enda er hún einstakt tækifæri fyrir þau til að komast í tæri við helstu sérfræðinga og umræðum um ástandið á Norðurslóðum. Fyrsti dagurinn var bjartur og fagur í Reykjavík og mikið fjölmenni á ráðstefnunni. Þá var hægt að berja háttsetta gesti hennar augum við setninguna, en þar voru vitaskud Herra Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og upphafsmaður Arctic Circle Assemby,  Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, krónprins Noregs og forsætisráðherrar Kanada og Grænlands. 

Landhelgisgæslan sýndi svo listir sýnar við björgunaræfingu hjá Hörpu í hádegishléinu og var það stórkostlegt sjónarspil í fallegu veðri með Esjuna í bakgrunni.  


1 af 8