þriðjudagur 23. september 2014

Fyrrerandi nemandi skrifar barnabók

[mynd 1 h]Annukka Pekkarinen útskrifaðist með meistaragráðu í haf- og strandsvæðstjórnun vorið 2012 og er nú doktorsnemi við World Maritime University (WMU) í Malmö í Svíþjóð. Nýlega samdi hún barnabók, Underwater alien invasion, sem gefin var út af WMU í tengslum við The North Sea Ballast Water Opportunity Project, sem er verkefni sem hefur að markmiði að auka meðvitund fólks um áhrif losun kjölfestuvatns í Norðursjó.

Bókin er hugsuð sem leið til að fræða börn um það hvernig framandi tegundir geta borist með kjölfestuvatni og sest að fjarri heimahögum þegar vatnið er losað úr skipunum. Þessar tegundir eru í sumum tilvikum mjög óæskilegir landnemar og geta haft mikil áhrif á vistkerfi í sjó sem og við sjávarsíðuna. Annukka líkir þetta við innrás geimvera og átti hún sjálf hugmyndina að bókinni ásamt tveimur öðrum doktorsnemum við WMU. Annukka vinnur nú meðal annars að því að útbúa gagnagrunn yfir framandi tegundir sem hafa fundist í Norðursjó.


[mynd 2 h]Haldið var útgáfuteiti í tilefni af útkomu bókarinnar og var bekk af grunnskólabörnum í Malmö boðið í teitið. Þar fengu börnin tækifæri til að læra um málefnið og hver nemandi fékk eintak af bókinni að gjöf. Háskólasetrið var einnig svo heppið að fá eintak af bókinni sem verður nú varðveitt í safni Setursins. Óskum Annukku innilega til hamingju með útkomu bókarinnar!