miðvikudagur 9. apríl 2008

Fyrirlestur um verkefni til meistaraprófs í næringarfræði við matvæla- og næringarfræðiskor HÍ

Fyrirlestur um verkefni til meistaraprófs í næringarfræði við matvæla- og næringarfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands verður haldinn laugardaginn 12.apríl kl.14:00 stofu 1 í Háskólasetri Vestfjarða.

Fyrirlesturinn byggir á rannsókn á mataræði íslenskra ungbarna sem fædd voru árið 2005 og samanburði við fyrri niðurstöður ungbarnarannsóknar sem gerð var á Rannsóknarstofu í næringarfræði árin 1995-97. Verkefninu var stjórnað af Ingu Þórsdóttur prófessor.

Salome Elín Ingólfsdóttir
Infant nutrition, breastfeeding and parents' social factors
Results from the Icelandic infant study 2005-2007

Næring ungbarna, brjóstagjöf og félagslegar aðstæður foreldra
Niðurstöður frá rannsókn á næringu ungbarna 2005-2007


Salome Elín Ingólfsdóttir útskrifaðist með BS-próf í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 2005. Árið 2006 hóf hún nám til meistaraprófs í næringarfræði við H.Í. við matvæla- og næringarfræðiskor skólans.

Markmið verkefnis Salome til meistaraprófs var að kanna áhrif félagslegra og nokkurra annarra þátta meðal foreldra á lengd brjóstagjafar og næringu ungbarnanna á fyrsta aldursári. Einnig voru niðurstöður rannsóknarinnar bornar saman við niðurstöður rannsóknar sem gerð var fyrir um 10 árum síðan.

Niðurstöðurnar sýndu að félagslegir þættir foreldra tengjast því hversu lengi börn eru höfð á brjósti, hvaða fæða þeim er gefin og hvernig næringarefnasamsetning fæðisins er. Menntun mæðra var jákvætt tengd því hversu lengi börn nærðust eingöngu á brjóstamjólk, auk D-vítamíngjafa. Börn sem byrjuðu í dagvistun fyrir 9 mánaða aldur voru einnig skemur eingöngu á brjóstamjólk heldur en þau sem hófu dagvistun eftir 9 mánaða aldur. Heildarlengd brjóstagjafar var jákvætt tengd aldri mæðra og lengd fæðingarorlofs. Börn meira menntaðra mæðra og í fjölskyldum með hærri ráðstöfunartekjur neyttu meðal annars viðbætts sykurs í minna magni og meira af trefjaefnum þegar þau voru 9 og 12 mánaða gömul en jafnaldrar þeirra sem áttu minna menntaða og tekjulægri foreldra. Dagvistun við 12 mánaða aldur barnanna er jákvætt tengd fiskneyslu. Næring íslenskra ungbarna hefur breyst í samræmi við ráðleggingar þar um frá 2003, en menntunarstig foreldra hafði tengsl við fylgni við ráðleggingar bæði nú og fyrir 10 árum síðan.

Verkefnið var unnið undir leiðsögn Dr. Ingu Þórsdóttur prófessors í næringarfræði og Dr. Ingibjargar Gunnarsdóttur dósents í næringarfræði.

Prófdómari var Dr. Björn Sigurður Gunnarsson, næringarfræðingur.

Fyrirlesturinn er öllum opinn meðan húsrúm leyfir og eru allir sem áhuga hafa hvattir til að mæta.