þriðjudagur 21. apríl 2009

Fyrirlestur i umhverfisheimspeki 22. apríl - tímasetning leiðrétt

Fyrirlesturinn í umhverfissheimspeki sem haldinn verður hér í Háskólasetri hefst kl 9 á morgun 22. apríl, en ekki kl 13, eins og fram kom í fréttatilkynningu. Biðjumst við velvirðingar á þessum mistökum.

Fyrirlesari er sem áður sagði Guðbjörg R. Jóhannesdóttir. Guðbjörg er með meistarapróf í umhverfisheimspeki frá Lancaster háskóla í Bretlandi og stundar nú doktorsnám í heimspeki við Háskóla Íslands. Doktorsverkefni Guðbjargar ber vinnuheitið Íslenskt landslag: fagurfræði og verndargildi og er um að ræða rannsókn á fagurfræðilegu gildi íslenskrar náttúru.

Í erindi sínu mun Guðbjörg stuttlega kynna umhverfisheimspekina og upphaf hennar. Mun hún m.a. fjalla um ritgerðina The Land Ethic eftir Aldo Leopold sem er einn af upphafsmönnum umhverfisheimspekinnar. Einnig verða kynntar nokkrar undirgreinar innan umhverfisheimspekinnar, t.d. fagurfræði náttúrunnar og heimspeki náttúruverndar. Innan þessara greina hefur m.a. verið færð rök fyrir því að náttúruvernd eigi ekki einungis að byggja á þeim gildum náttúrunnar sem birtast í vistfræðilegum og vísindalegum lýsingum á náttúrunni heldur þurfi líka að taka tillit til þeirra margvíslegu gilda sem náttúran og samband okkar við hana hefur fyrir okkur mannfólkið.


Hingað til hafa hagfræðilega gildið sem náttúran hefur fyrir mannfólkið og vistfræðilega gildið sem náttúran hefur óháð mannfólkinu verið þeir tveir pólar sem hafa verið mest áberandi í náttúruvernd- og nýtingu, en minna hefur verið fjallað um milliveginn; önnur gildi sem náttúran hefur fyrir okkur mennina, svo sem fagurfræðilegt gildi.

 

Fyrirlesturinn fer fram á ensku er haldinn í tengslum við námskeiðið í Human Ecology í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun.