föstudagur 29. október 2010

Fyrirlestur Dr. Jon D. Erickson um visthagfræði

Þriðjudaginn 26. október síðastliðinn gafst nemendum í haf- og strandsvæðastjórnun kostur á að hlýða á fyrirlestur Dr. Jon D. Erickson í tengslum við námskeiðið Economics of Coastal and Marine Environments sem Dr. Gabriela Sabau kennir og lýkur í þessari viku. Fyrirlesturinn, sem fram fór í gegnum Skype búnað, tókst í alla staði vel og vakti fjölda spurninga um efnahagsmál, alheimskreppuna og hvernig lífsgæði samfélaga eru mæld.

Dr. Jon D. Erickson er prófessor í visthagfræði við Rubenstein School og Environment and Natural Resources og Gund Institute for Ecological Economics við Vermont háskóla í Bandaríkjunum. Dr. Erickson fjallaði almennt um hugmyndafræði visthagfræðinnar og hvernig hún gæti mögulega leyst af hólmi hina neoklassísku hagfræði sem er og hefur verið ráðandi í efnahagsstefnu flestra ríkja heims og allri orðræðu á undanförnum áratugum. Dr. Erickson sagði einnig frá útreikningum sínum, Brynhildar Davíðsdóttur og nemenda þeirra við Háskóla Íslands á svokölluðum Genuine Progress Indicator (GPI) fyrir Ísland og samanburð við mælingar á vergri landsframleiðslu (GDP) hérlendis á undanförnum áratugum.

Það er mikils virði fyrir Háskólasetrið að eiga þess kost að fá innlegg frá fræðimönnum á borð við Dr. Jon Erickson sem standa framarlega í rannsóknum á sviði visthagfræði.