miðvikudagur 24. apríl 2013

Fyrirlestrar um markaðsmál

Markaðssérfræðingurinn Rob Warmenhoven, Erasmus skiptikennari frá vanHall-Larenstein háskólann í Hollandi, heldur tvo fyrirlestra um markaðsmál, með áherslu á smá- og örfyrirtæki, í Háskólasetri Vestfjarða dagana 25. og 26. apríl. Fyrri fyrirlestur Rob Warmenhoven fjallar um hegðun neytenda og umhverfismerkingar en sá síðari um áskoranir netmarkaðssetningar og þróun vörumerkja. Einnig kemur Rob fram í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða föstudaginn 26. apríl og fjallar þá um menningu Evrópu.


Fyrirlestrar Rob Warmenhoven eru frábært tækifæri fyrir rekstraraðila á Vestfjörðum og allt áhugafólk um markaðssetningu. Fyrirlestrarnir eru ókeypis og eru allir velkomnir. Sjá nánari upplýsingar hér að neðan.


Fimmtudagur, 25.04.2013, 12:30-15:00, Háskólasetri
Gestafyrirlestur: Hegðun neytenda og umhverfismerkingar
(Consumer Behavior with focus on eco-labeling)

Fimmtudaginn 25. apríl, kl. 12.30-15.00, býður Háskólasetur Vestfjarða upp á fyrirlestur Erasmus skiptikennarans Rob Warmenhoven frá vanHall-Larenstein háskólanum í Hollandi. Í fyrirlestri sínum mun Rob Warmenhoven fjalla um áhrif umhverfismerktrar vöru á hegðun neytenda með sérstöku tilliti til smá- og örfyrirtækja. Sjónum verður m.a. beint að því hverjar helstu tilhneigingarnar séu í Evrópu á þessu sviði, hverju megi búast við á komandi árum og hvernig umhverfismekingar munu hafa áhrif á hegðun neytenda. Í fyrirlestrinum verður einnig fjallað um hvernig fyrirtæki geta brugðist við þessari þróun. Fyrsta skrefið í því er aukinn skilningur og e.t.v. getur fyrsta skrefið í auknum skilningi verð þessi fyrirlestur.

Rob Warmenhoven, kennir m.a. námskeið um grunndvallarþætti markaðssetningar, neytendahegðun og útflutningsfræði við van-Hall-Larenstein háskólann.

Nemendur við vanHall-Larenstein skólann koma víða að úr heiminum og er enska megin kennslutungumál skólans. Háskólasetur Vestfjarða hefur verið í samskiptum við van-Hall-Larenstein skólann í gegnum Erasmus áætlunina og hefur árlega fengið skiptinema frá skólanum.

Fyrirlestur Rob Warmenhoven er ókeypis og opinn öllum áhugasömum enda liður í Erasmus kennaraskiptum.

Tími: Fimmtudagurinn 25. apríl kl. 12.30-15.00 í Háskólasetri Vestfjarða. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.


Föstudagur, 26.04.2013, 12:10-13:00, Háskólasetri
Evrópsk menning í Vísindaporti

Í Vísindaporti, föstudaginn 26. apríl, klukkan 12.10, mun Erasmus skiptikennarinn Rob Warmenhoven flytja erindi um evrópska menningu. Í erindinu mun hann velta upp spurningum á borð við: Hvað er Evrópa? Í hverju felast evrópsk einkenni? Hvar endar Evrópa? Og hvernig getum við átt í samskiptum við önnur evrópsk menningarsvæði?
Þar sem viðfangsefnið er víðfemt mun Rob Warmenhoven byggja á fræðilegum grunni kenninga Geert Hofstede um menningarlegar víddir, en Geert Hofstede er áhrifamikill rannsakandi á sviði kerfislægrar menningar, hagrænnar menningar, auk þess að vera upphafsmaður svokallaðra þvermenningarlegra samanburðarrannsókna.
Rob Warmenhoven, kennir m.a. námskeið um grunndvallarþætti markaðssetningar, neytendahegðun og útflutningsfræði við vanHall-Larenstein háskólann í Wageningen í Hollandi.

Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða er opið öllum og fer fram í kaffisal Háskólasetursins, það hefst stundvíslega klukkan
12.10. Erindi Rob Warmenhoven fer fram á ensku.
Þar sem Vísindaportið fer fram í hádeginu bendum við á að fólki er velkomið að taka með sér nesti eða kaupa samlokur í Háskólasetrinu.


Föstudagur, 26.04.2013, 10:00-12:00, Háskólasetri
Gestafyrirlestur: Áskoranir netmarkaðssetningar: Að þróa vörumerki
(The current challenges in E-Marketing: Branding your Product)

Í tengslum við heimsókn Erasmus gestakennarans Rob Warmenhoven frá vanHall-Larenstein háskólanum í Hollandi, býður Háskólasetur Vestfjarða upp á inngangsfyrirlestur um rafræna verslun og ríkjandi strauma og þróun þessara mála. Einnig verður fjallað um mikilvæg hugtök á þessu sviði. Fyrirlesturinn fer fram föstudaginn 26. apríl milli klukkan 10 og 12 í Háskólasetri Vestfjarða.

Fyrirlesturinn er tilvalið tækifæri til að kynnast helstu lögmálum rafrænnar verslunar og möguleikum samfélagsmiðla (á borð við Facebook og Twitter) til að hjálpa fyrirækjum við markaðssetningu. Hér er einnig á ferðinni frábært tækifæri til að fá innsýn og upplýsingar um rafræn viðskipti almennt.

Efni fyrirlestursins verður eftirfarandi:

  • Yfirlit yfir rafræna verslun
  • Smávöruverslun og rafræn verslun
  • Samfélagsmiðlar og samfélags viðskipti
  • Markaðssetning og rafræn verslun
  • Að setja á fót árangursríkt netfyrirtæki

Rob Warmenhoven kennir m.a. grunndvallaratriði í markaðssetningu, neytendahegðun og útflutningsfræði við vanHall-Larenstein háskólan í Wageningen í Hollandi.
Fyrirlesturinn fer fram á ensku í Háskólasetri Vestfjarða föstudaginn 26. apríl kl. 10-12. Hann er ókeypis og opinn öllum áhugasömum enda liður í kennaraskiptum Erasmus áætlunarinnar.
Tími: Föstudaginn 26. apríl kl. 10-12