mánudagur 23. júní 2008

Fundur um strandsvæðaskipulag í Noregi

Fundur um strandsvæðaskipulag í Noregi verður haldinn, föstudaginn 27. júní kl 10.30 í Háskólasetri Vestfjarða og í fjarfundi í Skor, þróunarsetri Patreksfirði og í Grunnskólanum á Hólmavík. Fundurinn er öllum opin, en sérstaklega beint að sveitarstjórnum, skipulagsyfirvöldum, fyrirtækjum og þeim aðilum er stunda rannsóknir og kennslu á þessu sviði.


Frummælandi á fundinum verður Gunnar Davíðsson, sjávarútvegsfræðingur, deildarstjóri á skrifstofu Tromsfylkis í Tromsö, Noregi. Hann mun annarsvegar fjalla um þróun í gerð strandsvæðaskipulags í Noregi á síðustu árum og væntanlegar breytingar á því sviði. Hinsvegar til hverra þátta hefur verið horft til við gerð strandsvæðaskipulags.


Tilefni fundarins er að Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur sett fram þá tillögu til vestfirskra sveitarfélaga að hefja gerð svæðisskipulags fyrir Vestfirði, tillagan er gerð á grundvelli greinargerðar starfshóps Fjórðungssambands Vestfirðinga um svæðisskipulag fyrir Vestfirði. Við gerð þessa svæðisskipulags hefur einnig verið ákveðið að taka til skoðunar skipulag strandsvæða þ.e. svæðis utan netlagnar og þarf af leiðandi utan stjórnsýslu sveitarfélaganna.


Hér yrði um að ræða reynsluverkefni á Íslandi en engin ákvæði eru til um gerð slíks skipulags hér á landi, en skipulag af slíku tagi er þekkt erlendis m.a. í Noregi. Það er mat starfshópsins að miðað við reynslu annarra þjóða, þá muni á komandi árum verða aukin ásókn í nýtingu strandsvæða. Nefna má þar fiskeldi, skelrækt, ferðaþjónustu, orkuframleiðslu, hefðbundnar fiskveiðar og aukin áhersla á verndun náttúru og menningar. Til lengri tíma litið verður að telja, að verulegir hagsmunir séu í húfi fyrir sveitarfélög, íbúa þeirra og atvinnulíf, að sem best takist til við skipulag starfsemi á strandsvæðum og þar verði unnið innan skilvirks kerfis líkt og við gerð skipulag á landi.


Allar nánari upplýsingar veitir skrifstofa Fjórðungssambands Vestfirðinga í síma 450 3001 eða 862 6092. Skráning á fundinn er á tölvupóstfangið skrifstofa@fjordungssamband.is