Fundur um sjávartengda ferðaþjónustu
Forsaga málsins er sú að haustið 2008 sendu aðilar á Íslandi, Írlandi og í Noregi sameiginlega umsókn til NPP um forverkefni sem felst í mótun ítarlegrar umsóknar til NPP um þróunarverkefni. Fékkst styrkur að upphæð €13.000, en áætlaður heildarkostnaður þessa forverkefnisins er um €30.000.
Að verkefninu standa aðilar frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Finnmörku, Noregi og Teagasc-rannsóknastofnuninni á Írlandi, en síðastnefnda stofnunin leiðir verkefnið. Samstarfsaðilar í hverju landi eru allmargir og koma úr röðum fyrirtækja, atvinnuþróunarfélaga, sveitarfélaga og annarra sem láta sig varða atvinnumál og byggðaþróun í sjávarbyggðum þátttökulandanna.
Á Íslandi verða vestfirskar sjávarbyggðir í brennidepli og stendur Land- og ferðamálafræðistofa Háskóla Íslands að baki umsókninni í samvinnu við Rannsókna- og fræðasetur HÍ á Vestfjörðum. Samstarfs hefur þegar verið leitað við ýmis fyrirtæki í sjávartengdri ferðaþjónustu á svæðinu, Háskólasetur Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.
Markmið þessa þróunarverkefnisins eru í stuttu máli að leiða í ljós tækifæri til nýsköpunar og verðmætaaukningar í greinum sem tengjast nýtingu sjávarauðlinda, að tengja saman menningararfleifð og staðbundna þekkingu heimafólks á auðlindum sjávar við sérfræðiþekkingu, að greina efnahagsleg áhrif, félagsleg áhrif og umhverfisáhrif af sjávartengdri ferðaþjónustu og að stuðla að yfirfærslu þekkingar á þessu sviði til annarra byggðarlaga á því svæði sem Norðurslóðaáætlunin tekur til.
Í því skyni verða haldnar kynningar, námskeið og ráðstefnur um sjávartengda ferðaþjónustu í hverju landi með það í huga að auka skilning á því hvernig nýsköpun í sjávartengdri ferðaþjónustu getur stuðlað að sjálfbæru atvinnulífi og jákvæðri byggðaþróun. Var fundurinn á Ísafirði ídag sá fyrsti í röðinni.
Þeim sem áhuga hafa á að fræðast frekar um verkefnið er bent á að hafa samband við:
Karl Benediktsson, prófessor (kben@hi.is) eða Katrín Anna Lund, lektor (kl@hi.is)