Fulltrúi Háskólaseturs þátttakandi á vinnufundi um Fremtiden i Disko Bugt
Forstöðumaður Háskólaseturs kom nýlega af vinnufundi sem var fjármagnaður af Norrænu ráðherranefndinni um sjálfbæra aðlögun að loftslagsbreytingum og alþjóðavæðingu í Diskobugt, Grænlandi. Þessi vinnufundur kemur einmitt á réttum tíma þegar Háskólasetrið er að setja á laggirnar nýja námsleið í Sjávarbyggðafræði.
Á þessum tveggja daga vinnufundi í Ilulissat, Disko Bugt, skilgreindu bæði íbúar frá byggðum í kring um Disko-Bugt, vísindamenn og fólk með reynslu á sviðibyggðaþróunar frá Grænlandi, Danmörku og hinum Norðurlöndunum framtíðar rannsóknarspurningar, sem gera það kleift að aðlögun að breyttu loftslagi og breyttum umheimi geti átt sér stað á grundvelli þekkingar. Með sviðsmyndar-aðferð skilgreindu þátttakendur ákveðnar rannsóknarspurningar, sem eiga það sameiginlegt að veita raunverulegar lausnir sem snúa að bæði vandamálum og tækifærum í byggðaþróun í litlum, en þó nokkuð dæmigerðum grænlenskum bæ.
Fyrir þátttakendur frá bæjum og byggðum í kring um Disko-Bugt hljóta samræður um þeirra helstu málefni að hafa verið mikilvægastar, meðan rannsóknarmennirnir horfa væntanlega mest til uppbyggingar á sterku þekkingarneti innan Norðurlanda.
Fyrir Háskólasetur Vestfjarða er samband við mjög viðeigandi net rannsóknarmanna frá Grænlandi, Danmörku og hinum Norðurlöndunum afgerandi á sama tíma og Háskólasetur, í samstarfi við Háskólann á Akureyri byggir upp sitt nýja meistaranám í Byggðafræði. En það er líka áhugavert að sjá hvað þessi byggðarlög, Ilulissat og Ísafjörður, svipuð að íbúafjölda, eru bæði lík og ólík í senn. Vissulega hjálpar að bera ekki saman Grænland við Ísland, heldur Disko-Bugt-svæðið við Vestfirði, sem kalla sig stundum hálfglettnislega "The other Iceland". Sjávarútvegur, ferðamennska, skemmtiferðaskip, strandveiðakvótinn, nútímavæðing og félagslegar brotalínur, allt virðast þetta vera ofarlega á blaði í báðum samfélögum. Á Grænlandi er brottflutningur ekki stóra umræðumálið enda eðlileg fjölgun há. Þar hins vegar er hlutfall íbúa með bara grunnskólapróf töluvert hærra en á landsbyggðinni á Íslandi, sem setur hraðri þróun grænlenska samfélagsins skorður.
Vinnufundurinn var haldinn í Ilulissat við stóra ísfjörðinn Ilulissat Kangerlua, þar sem fulltrúinn frá Ísafirði var loks kominn við Ísfjörð sem ber nafn með rentu. Í Ísfjörðinn fellur afkastamesti jökull Grænlands og heimsins, ef Suðurskautslandið er undanskilið. Ilulissat með sínum rúmlega 4.000 íbúum tekur á móti þriðjungi ferðamanna sem koma til Grænlands. Umhverfi vinnufundar var því stórbrotið og ekki sakar að það er flogið beint frá Reykjavík til Ilulissat.