miðvikudagur 18. apríl 2018

Fulltrúi Háskólaseturs þátttakandi á vinnufundi um Fremtiden i Disko Bugt

Forstöðumaður Háskólaseturs kom nýlega af vinnufundi sem var fjármagnaður af Norrænu ráðherranefndinni um sjálfbæra aðlögun að loftslagsbreytingum og alþjóðavæðingu í Diskobugt, Grænlandi. Þessi vinnufundur kemur einmitt á réttum tíma þegar Háskólasetrið er að setja á laggirnar nýja námsleið í Sjávarbyggðafræði.

Á þessum tveggja daga vinnufundi í Ilulissat, Disko Bugt, skilgreindu bæði íbúar frá byggðum í kring um Disko-Bugt, vísindamenn og fólk með reynslu á sviðibyggðaþróunar frá Grænlandi, Danmörku og hinum Norðurlöndunum framtíðar rannsóknarspurningar, sem gera það kleift að aðlögun að breyttu loftslagi og breyttum umheimi geti átt sér stað á grundvelli þekkingar. Með sviðsmyndar-aðferð skilgreindu þátttakendur ákveðnar rannsóknarspurningar, sem eiga það sameiginlegt að veita raunverulegar lausnir sem snúa að bæði vandamálum og tækifærum í byggðaþróun í litlum, en þó nokkuð dæmigerðum grænlenskum bæ.

Fyrir þátttakendur frá bæjum og byggðum í kring um Disko-Bugt hljóta samræður um þeirra helstu málefni að hafa verið mikilvægastar, meðan rannsóknarmennirnir horfa væntanlega mest til uppbyggingar á sterku þekkingarneti innan Norðurlanda.

Fyrir Háskólasetur Vestfjarða er samband við mjög viðeigandi net rannsóknarmanna frá Grænlandi, Danmörku og hinum Norðurlöndunum afgerandi á sama tíma og Háskólasetur, í samstarfi við Háskólann á Akureyri byggir upp sitt nýja meistaranám í Byggðafræði. En það er líka áhugavert að sjá hvað þessi byggðarlög, Ilulissat og Ísafjörður, svipuð að íbúafjölda, eru bæði lík og ólík í senn. Vissulega hjálpar að bera ekki saman Grænland við Ísland, heldur Disko-Bugt-svæðið við Vestfirði, sem kalla sig stundum hálfglettnislega "The other Iceland". Sjávarútvegur, ferðamennska, skemmtiferðaskip, strandveiðakvótinn, nútímavæðing og félagslegar brotalínur, allt virðast þetta vera ofarlega á blaði í báðum samfélögum. Á Grænlandi er brottflutningur ekki stóra umræðumálið enda eðlileg fjölgun há. Þar hins vegar er hlutfall íbúa með bara grunnskólapróf töluvert hærra en á landsbyggðinni á Íslandi, sem setur hraðri þróun grænlenska samfélagsins skorður.

Vinnufundurinn var haldinn í Ilulissat við stóra ísfjörðinn Ilulissat Kangerlua, þar sem fulltrúinn frá Ísafirði var loks kominn við Ísfjörð sem ber nafn með rentu. Í Ísfjörðinn fellur afkastamesti jökull Grænlands og heimsins, ef Suðurskautslandið er undanskilið. Ilulissat með sínum rúmlega 4.000 íbúum tekur á móti þriðjungi ferðamanna sem koma til Grænlands. Umhverfi vinnufundar var því stórbrotið og ekki sakar að það er flogið beint frá Reykjavík til Ilulissat.


Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, ásamt Joan Nymand Larsen frá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar/Akureyri, hinum þátttakandanum frá Íslandi.
Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, ásamt Joan Nymand Larsen frá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar/Akureyri, hinum þátttakandanum frá Íslandi.
1 af 2