fimmtudagur 19. nóvember 2009

Frumkvöðlastarf á Vestfjörðum

Í tilefni þess að vikuna 16.-22. nóvember 2009 er haldin Alþjóðleg athafnavika í meira en 100 löndum, þar á meðal á Íslandi, verður Vísindaportið föstudaginn 20. nóvember helgað frumkvöðlastarfi á Vestfjörðum. Markmið athafnavikunnar er að vekja fólk til umhugsunar um gildi nýsköpunar og athafnasemi fyrir samfélagið. Jafnframt því að senda jákvæð og uppbyggileg skilaboð til Íslendinga, snúa við umræðunni um atvinnulífið og gefa þjóðinni tilefni til að horfa björtum augum fram á veginn.

 

Þorleifur Ágústsson lauk doktorsprófi í dýralífeðlisfræði frá Gautaborgarháskóla árið 2001. Árið 2003 viðraði hann hugmyndir sínar um að stofna fyrirtæki sem framleiddi gæludýrafóður úr íslensku hráefni , en slíkt fyrirtæki hafði ekki verið starfandi á Íslandi áður. Þorleifur leitaði eftir samstarfi við dr. Braga Líndal Ólafsson fóðurfræðing og saman unnu þeir að undirbúningi fyrirtækisins sem í dag heitir Murr ehf. og var stofnað í maí 2008. Í fyrirlestrinum mun Þorleifur fjalla um tilurð, aðstæður og aðbúnað við stofnun lítils nýsköpunarfyrirtækis á landsbyggðinni.