föstudagur 21. ágúst 2009

Frumgreinanemum heilsað og íslenskunemar kvaddir

Að vanda er ágústmánuður annasamur og líflegur í Háskólasetri Vestfjarða. Í dag kveðjum við þá rúmlega hundrað íslenskunema sem hafa stundað nám á Núpi í Dýrafirði og í Háskólasetrinu. Nemendurnir fara nú til náms í háskólum í Reykjavík, Borgarfirði og Akureyri og taka vonandi með sér gagnlega lífsreynslu héðan að vestan.

Í gær hófst svo kennsla í frumgreinanámi Háskólaseturs en 23 nemendur á Vestfjörðum stunda nú frumgreinanámið. Svokölluð staðarlota hjá fjarnemum sem stunda nám á fyrstu önn frumgreinanámsins hófst síðan í dag. Stærstur hluti fjarnemanna á fyrstu önn eru nemendur frá frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík en Háskólasetur Vestfjarða sér um alla fjarkennslu á 1. önn frumgreinanáms HR. Alls er um að ræða 25 nemendur sem flestir eru staddir á Ísafirði núna vegna staðarlotunnar sem markar upphaf námsins og gefur nemendum tækifæri til að hitta kennara og samnemendur sína. Að helginni lokinni tekur svo við fjarnám alla haustönnina.

Staðarlotunemar mættir í tíma hjá Ólafi Jens Sigurðssyni kennara.
Staðarlotunemar mættir í tíma hjá Ólafi Jens Sigurðssyni kennara.