Frumgreinanemar útskrifast
Laugardaginn 16. janúar síðastliðinn var svo komið að tímamótum því þá útskrifuðust fyrstu nemendur Háskólaseturs Vestfjarðar með frumgreinapróf, þau Finnbogi Bjarnason, Guðmundur Óskar Reynisson og Sigurbjörg Benediktsdóttir. Þau útskrifuðust ásamt 25 nemendum Háskólans í Reykjavík í viðurvist Svöfu Grönfelt rektors HR, Guðrúnar Högnadóttur, framkvæmdastjóra Opna háskólans innan HR, Málfríðar Þórarinsdóttur forstöðumanns frumgreinasviðs HR, ásamt forstöðumanni og kennslustjóra Háskólaseturs Vestfjarða. Þessir þrír nemendur eru glæsilegir fulltrúar þeirra fjölmörgu frumgreinanema sem hafa staldrað við hjá Háskólasetrinu frá upphafi námsins. Þau hafa lagt hart að sér undanfarin tvö ár og hafa nú lokið þessum áfanga og munu væntanlega öll halda áfram í frekara nám næstkomandi haust.
Starfsfólk Háskólaseturs Vestfjarða óskar Finnboga, Guðmundi og Sigurbjörgu hjartanlega til hamingju með þennan glæsilega áfanga og þakkar fyrir samveruna undanfarin misseri og óskar þeim velfarnaðar í öllu því sem þau taka sér fyrir hendur í framtíðinni.