fimmtudagur 10. janúar 2008

Frumgreinanám hafið við Háskólasetur Vestfjarða

Á mánudaginn hófst kennsla í frumgreinanámi við Háskólasetur Vestfjarða. Þetta er í fyrsta sinn sem full kennsla fer fram við Háskólasetrið, en nemendur í frumgreinanámi munu útskrifast frá Háskólasetri Vestfjarða.

Hér er um að ræða samstarf við Háskólann í Reykjavík, en frumgreinanámið er sama frumgreinanám og kennt er við þann skóla en öll framkvæmd námsins á Vestfjörðum er í höndum Háskólasetursins, kennsla, umsjón og allt annað sem fylgir.

Ráðnir hafa verið stundakennarar við Háskólasetrið sem sjá um kennslu í frumgreinanáminu. Kennararnir eru eftirfarandi: Albertína Elíasdóttir, Anna Guðrún Edvardsdóttir, Gunnar Pétur Garðarsson, Margrét Högnadóttir og Sólrún Geirsdóttir. Það er mjög ánægjulegt hversu vel hefur tekist við ráðningu fyrstu kennara við Háskólasetur Vestfjarða því hér er um mjög hæft fólk að ræða.

Frumgreinanám Háskólasetursins er einnig í boði í fjarnámi innan Vestfjarða og eru nemendur á Vestfjörðum alls 22, ýmist í fjarnámi eða staðarnámi. Hluti af samningnum við Háskólann í Reykjavík hljóðar upp á að nemendur við frumgreinasvið skólans sem eru að hefja nám á fyrstu önn munu verða í fjarnámi hjá Háskólasetri Vestfjarða fyrstu önn námsins þar sem að Háskólinn í Reykjavík hefur ekki boðið upp á fyrstu önn námsins síðan árið 2004. Það eru því nú á vorönn 2008 samtals 40 nemendur sem stunda frumgreinanám við Háskólasetur Vestfjarða, 22 á Vestfjörðum og 18 í Reykjavík.

Hannað hefur verið Námsnet Háskólaseturs Vestfjarða, en það er byggt á námsumsjónarkerfi sem heitir MySchool og er hannað af Jóhannesi Steingrímssyni. Námsnetið er notað fyrir fjarkennsluna en einnig geta staðarnemendur nýtt sér það og haldið þar utan um allt sitt nám. Námsnetið kemur síðan til með að verða notað við allt nám sem kemur til með að verða kennt við Háskólasetrið.

Fjarnemendur mættu til Ísafjarðar um síðustu helgi, til að hitta kennarana sína á Ísafirði og komast af stað í náminu. Helgin tókst mjög vel og almenn ánægja var meðal fjarnema með móttökur á Ísafirði. Staðarnemendur hófu síðan sitt nám á mánudagsmorgunn og eru búnir að sitja sleitulaust yfir bókunum síðan. Meðfylgjandi myndir sína annars vegar fjarnemendur við nám og hins vegar staðarnema í tíma í Háskólasetrinu.

Þróun Háskólaseturs Vestfjarða heldur því jafnt og þétt áfram og verður ekki staðar numið hér því næstkomandi haust mun fara af stað nám á meistarastigi í haf- og strandsvæðastjórnun í samstarfi við Háskólann á Akureyri.  Það er því óhætt að segja að spennandi tímar séu framundan hjá hinu unga Háskólasetri og mikil gróska í háskólamálum á Vestfjörðum.


Jóhannes Steingrímsson kennir fjarnemum á Námsnet Háskólaseturs Vestfjarða
Jóhannes Steingrímsson kennir fjarnemum á Námsnet Háskólaseturs Vestfjarða
1 af 3