þriðjudagur 11. desember 2012

Framhaldslíf meistaraprófsverkefnis

Eins og landsmenn fræddust um í sjónvarpsþættinum Landanum um síðastliðna helgi hefur lokaverkefni Alans Deverell í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun fengið framhaldslíf. Verkefni Alans snerist um að kortleggja þá möguleika sem finnast á Vestfjörðum fyrir köfunarstarfsemi í afþreyingarskini. Fyrr á þessu ári fór í gang framhaldsvinna með niðurstöður Alans en að þeirri vinnu komu meða annars Matís, AVS rannsóknarsjóður í sjávartútvegi, Náttúrustofa Vestfjarða, Hótel Núpur og Dive.is. Í Landanum á sunnudag var rætt við Sveinbjörn Hjálmarsson kafara á Ísafirði sem hyggst í samstarfi við aðra aðila bjóða upp á köfunarferðir þar sem kafað er eftir mat og hann eldaður í fjöruborðinu eða á veitingastað í nágrenninu.

Meistaraprófsverkefni Alans Deverells hefur því svo sannarlega hlotið framhaldslíf og er gott dæmi um það hvernig sú þekkingarsköpun sem á sér stað í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun getur nýst áfram til nýsköpunar í atvinnulífi á Vestfjörðum. Þess má svo geta að ný námsleið á meistarastigi við Háskólasetrið, Sjávartengd nýsköpun, gengur einmitt út á að finna leiðir til að nýta náttúru og auðlindir á Vestfjörðum til atvinnusköpunnar. Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér þessa námsleið hér á heimasíðunni.

Hér má svo nálgast upptöku af viðtalinu sem Landinn átti við Sveinbjörn Hjálmarsson.

Köfun gæti í framtíðinni orðið góð viðbót í fjölbreytta flóru valkosta fyrir ferðamenn á Vestfjörðum. Ljósmynd Danny O'Farrell.
Köfun gæti í framtíðinni orðið góð viðbót í fjölbreytta flóru valkosta fyrir ferðamenn á Vestfjörðum. Ljósmynd Danny O'Farrell.