fimmtudagur 4. nóvember 2010

Frá orðum til athafna: Tengsl femínimsma og stöðu kvenna á stríðssvæðum

Gestur Vísindaports föstudaginn 5. nóvember er Auður H. Ingólfsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur. Í erindi sínu mun Auður fjalla um áhrif femíniskra kenninga, jafnréttisbaráttu og starfsemi alþjóðlegra kvennasamtaka á umræður og aðgerðir sem snúa að konum, friði og öryggi.

Í erindinu verður femínismi settur í samhengi við alþjóðasamskipti og skoðað hvernig femínískar kenningar hafa haft áhrif á alþjóðastjórnmál, og þá sérstaklega umræðu um öryggismál á alþjóðavettvangi. Í október sl. voru tíu ár síðan Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun 1325 um konur, frið og öryggi, en hún fjallar m.a. um kynbundið ofbeldi í stríðsátökum, þátttöku kvenna í friðarviðræðum og aðkomu þeirra að samfélagsuppbyggingu eftir átök. Skrif femínískra fræðinga var mikilvægt innlegg í umræðu um endurskilgreiningu á öryggishugtakinu, og má segja að sú endurskilgreining, sem og virk barátta kvennahreyfinga á alþjóðavettvangi, hafi skapað þann jarðveg sem ályktun 1325 spratt upp úr. Að sama skapi eru kvennahreyfingar mikilvægir gerendur þegar kemur að því að koma atriðum úr ályktuninni í framkvæmd í staðbundnum aðstæðum. Dæmi frá Kosova sýna að þó ályktun 1325 veiti kvennahreyfingum mikilvægan lykil til að krefjast aðgangs að pólitískri umræðu og opinberum friðarferlum, þá er enn mikið verk óunnið að breyta hugarfari ríkjandi valdhafa. Á þetta ekki aðeins við um stjórnvöld viðkomandi ríkja, heldur einnig þá sem sitja við stjórnvölinn í alþjóðlegum stofnunum, þar með talið stofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Auður H. Ingólfsdóttir er lektor við Háskólann á Bifröst, hún lauk hún lauk meistaranámi í alþjóðasamskiptum frá Fletcher School of Law and Diplomacy við Tufts háskólann í Boston í Bandaríkjunum. Hún vinnur nú að doktorsritgerð sem fjallar um öryggismál og loftslagsbreytingar á heimskautasvæðinu með áherslu á Ísland. Auður hefur mikla reynslu úr háskólaumhverfinu og úr stjórnsýslunni, en hún hefur m.a. starfað við meistaranámsleið í umhverfisfræðum við Háskóla Íslands, sem sérfræðingur hjá umhverfisráðuneytinu og ráðgjafi á sviði umhverfismála auk þess að sinna störfum fyrir íslensku friðargæsluna á Sri Lanka og á Balkanskaganum.

Sem fyrr hefst Vísindaportið klukkan 12.10 og fer fram í kaffisal Háskólasetur. Allir velkomnir!