fimmtudagur 27. mars 2008

Forvarnir, vímuefnaneysla og aðgengi að fíkniefnum

Jóhanna Rósa Arnardóttir, forstöðumaður Rannsóknarseturs í barna- og fjölskylduvernd (www.rbf.is), mun kynna niðurstöður nýrrar rannsóknar um forvarnir, vímuefnaneyslu og aðgengi að fíkniefnum meðal 18-20 ára ungmenna sem RBF hefur unnið að.


Niðurstöður byggja á símakönnun sem framkvæmd var í lok ársins 2007 af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Tekið var 1200 manna úrtak með fólks á aldrinum 18-20 ára á öllu landinu. Svarhlutfall er 68%.

Rannsóknin beinist m.a. að því að kanna þátttöku ungmenna í forvarnafræðslu í skólum og utan skóla. Kannað er að hvaða marki þau fá fræðslu hjá foreldrum eða í fjölmiðlum um skaðsemi vímuefna.  Þeir svarendur sem voru óánægðir með fræðsluna voru spurðir sérstaklega um það í þeim tilgangi að kanna nánar hvað veldur óánægju þeirra, en fyrri rannsókn sýndi að ungmenni sem hafa einhverja reynslu af vímuefnum eru líklegri til að vera óánægð með fræðsluna. Einnig er könnuð vímuefnaneysla og fíkniefnaneysla vina. Aðgengi að fíkniefnum er kannað út frá því hvort þeim hafi verið boðin þau, hvar þeim hafa verið boðin þau og að hvaða marki þau þekkja til þess hvernig hægt er að nálgast fíkniefni hér á landi. 

Niðurstöður sýna m.a. að um 60% hafa verið boðin fíkniefni og um 38% þekkja vel til þess hvernig nálgast má fíkniefni hér á landi.


Þetta er önnur rannsókn höfundar um þetta sama efni og er því hægt að bera niðurstöður saman við sambærilega könnun sem framkvæmd var árið 2004.

 

Eftir vísindaporti gefst VáVest-hópnum og öðrum, sem hafa áhuga á forvarnarspurningum tækifæri til að hitta Jóhönnu Rósu að máli. 

 

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum þar sem einhver segir í stuttu máli, 20-30 mínútur, frá sínum núverandi eða eldri rannsóknum - og svo er orðið laust. Fyrirlesturinn fer fram í kaffisal Háskólasetursins og eru allir velkomnir.