fimmtudagur 6. október 2011

Foreldrafærni í anda Uppbyggingar sjálfsaga

Í Vísindaporti föstudaginn 7. október munu þær Anna Lind Ragnarsdóttir og Jóna Benediktsdóttir kynna foreldrafærninámskeið í anda Uppbyggingar sjálfsaga. Meginþema umræðunnar verður: Hvaða hlutverki ættu skólar að gegna við mótun samfélagsins og hvaða tækifæri hafa þeir til þess?
Fjallað verður um Uppbyggingu sjálfsaga og hvernig hægt að er nýta þá hugmyndafræði til að virkja foreldra og samfélagið til a eflingar lýðræðisþróunar á heimavelli. Með því að vinna samkvæmt þessari stefnu hjálpum við börnum og ungmennum að taka betri ákvarðanir í lífi sínu. Á foreldranámskeiði læra foreldrar áhrifaríka leið í samskiptum og aðferð til að sinna eigin þörfum á uppbyggilegan hátt. Skólanir fá aukinn skilning á sínum verkefnum með því að allir tali sama tungumál. Þannig verður þetta verkefni til hagsbóta fyrir allt samfélagið.
Anna Lind er skólastjóri Súðavíkurskóla. Hún er með B.ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og diplomu í stjórnun menntastofnanna, einnig frá Kennaraháskóla Íslands.
Jóna Benediktsdóttir er aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á Ísafirði. Hún er með B.ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og vinnur nú að mastersritgerð í sérkennslufræðum við Háskóla Íslands.
Vísindaportið sem er öllum opið er haldið í kaffistofu Háskólasetursins og hefst það klukkan 12:10.