föstudagur 21. október 2011

Fjórir vettvangsskólar væntanlegir 2012

Eitt af verkefnum Háskólaseturs er að bjóða aðstoð við að skipuleggja dvöl erlendra vettvangsskóla og er þessi þjónusta að færast í aukana. Næsta sumar á Háskólasetrið von á fjórum vettvangsskólahópum hingað til Vestfjarða. Munu hóparnir eyða hér frá fimm dögum og upp í þrjár vikur. Þrír hópar eru frá Bandaríkjunum og einn frá Kanada.

Fyrsti hópur sumarsins er væntanlegur um miðjan maí. Er um að ræða hóp á vegum enskudeildar Háskólans í Connecticut og verður það í fyrsta sinn sem Háskólasetrið tekur á móti nemendum frá þeim háskóla. Dr. Tamarah Kohanski fer fyrir hópnum sem leggur stund á fornbókmenntir og sögu.

Rúmum mánuði síðar verður hér á ferðinni hópur frá Háskólanum í Washington. Er það í annað sinn sem við fáum þaðan hóp, en síðast voru þeir hér 2009. Þessir nemar leggja stund á hugmyndasögu og er dvölin á Vestfjörðum liður í þverfaglegu námskeiði, CHID (Comparative History of Ideas) Summer Program, sem fjallar um sambandið milli manns og náttúru. Umsjón með hópnum hefur Dr. Phillip Thurtle.

SIT hópurinn 2011 við safnið í Neðstakaupstað, Ísafirði.
SIT hópurinn 2011 við safnið í Neðstakaupstað, Ísafirði.
Hinn hópurinn er á vegum íslenskudeildar Háskólans í Manitoba í Kanada og kemur hann í fylgd Dr. Birnu Bjarnadóttur. Birna er forstöðumaður íslenskudeildarinnar, sem er sú eina sinnar tegundar í Norður-Ameríku og hefur hún haft veg og vanda af heimsóknum nemahópanna, frá fyrstu heimsókn á vegum deildarinnar til Vestfjarða árið 2007.

Á meðan á Vestfjarðadvölinni stendur fá hóparnir fræðslu um svæðið og gegnir Gísla Saga Súrssonar þar mikilvægu hlutverki. Nemendur njóta þar góðs af þekkingu og sagnamiðlun heimamanna og er t.a.m. farið í gönguferðir um slóðir Gísla Súrssonar í fylgd Þóris Arnar Guðmundssonar leiðsögumanns og er einleikur Elfars Loga Hannessonar um Gísla ávallt á dagskrá.

Það lítur úr fyrir að sumarið verði viðburðarríkt og við hlökkum til að taka á móti fastagestum jafnt sem nýjum gestum.

Fyrir frekari upplýsingar sjá Sumarháskólar á vef Háskólaseturs, eða hafið samband við Pernillu Rein verkefnastjóra pernilla(hjá)uwestfjords.is