miðvikudagur 12. ágúst 2009

Fjölmennur sumarháskóli í íslensku

Um þessar mundir stunda 110 erlendir námsmenn íslenskunám við Háskólasetur Vestfjarða sem heldur námskeiðið fyrir Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins. Fletir nemendurnir eru Erasmus eða Nordplus styrkþegar sem munu hefja háskólanám á Íslandi í haust. Auk þess taka þátt í námskeiðinu nemendur sem á eigin vegum og nemendur sem hefja meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið í haust.

Kennslan fer að mestu fram að Núpi í Dýrafirði en flestir nemendurnir búa þar einnig á meðan á námskeiðinu stendur. Talsvert af kennslunni fer einnig fram á Ísafirði í Háskólasetrinu og raunar um allan bæ því áhersla er lögð á að nemendur noti það sem þeir læra í kennslustundunum við raunverulegar aðstæður. Íbúar á Ísafirði hafa verið einkar hjálplegir hvað þetta varðar og duglegir að tala bara íslensku við nemendurna.

Valnámskeiðin í ár eru mjög fjölbreytt, sem dæmi má nefna námskeið í sultugerð, búðarferðum, slangri, námskeið um ljóð ísfirska skáldsins Eiríks Arnar Norðdahl og námskeið um sjónvarpsfréttir svo fátt eitt sé nefnt. Námskeiðið hófst þriðjudaginn 4. ágúst síðastliðinni en því lýkur föstudaginn 21. ágúst og er það því ríflega hálfnað og leggja nemendurnir af stað með rútu og leiðsögn til Reykjavíkur daginn eftir.

Nemendur búa sig undir að leggja af stað í Keppnina um fjársjóðinn, eitt af valfögum íslenskunámskeiðsins.
Nemendur búa sig undir að leggja af stað í Keppnina um fjársjóðinn, eitt af valfögum íslenskunámskeiðsins.