fimmtudagur 6. apríl 2017

Fjölmenn og vel heppnuð ráðstefna

Óhætt er að fullyrða að ráðstefnan „Skemmtiferðaskip á réttri leið?“, sem fram fór í Edinborgarhúsinu  á Ísafirði í byrjun vikunnar, hafi tekist vel og var aðsókn mun betri en skipuleggjendur höfðu reiknað með. Alls voru átján fyrirlestrar í boði þar sem fjallað var um málefni skemmtiferðaskipa frá ýmsum og ólíkum sjónarhólum. Efni ráðstefnunnar getur nýst við stefnumótun sveitarfélaga í þessum málaflokki.

Ráðstefnan var samstarfsverkefni Háskólaseturs Vestfjarða, Ísafjarðarbæjar, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Ferðamálasamtaka Vestfjarða, Vesturferða og Markaðsstofu Vestfjarða. Einnig studdi Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið við ráðstefnuhaldið en ferðamál heyra undir ráðuneytið. Það var einmitt Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, sem opnaði ráðstefnuna og flutti ávarp um áherslur stjórnvalda  í þessum málaflokki.

Norðamaðurinn Frigg Jörgensen, framkvæmdastjóri AECO, samtaka útgerða skemmtiferðaskipa á Norðurslóðum, flutti inngangserindi ráðstefnunnar en Frigg hefur víðtæka reynslu á þessu sviði og starfaði um árabil að uppbyggingu ferðaþjónustu á Svalbarða í Noregi.  Aðrir fyrirlesarar voru innlendir, bæði úr röðum fræðimanna sem og hagsmunaaðila á borð við ferðaþjónustufyrirtæki og sveitarfélög. Einnig fluttu erindi Kolbrún Sverrisdóttir íbúi á Ísafirði og Halldóra Björk Norðdahl, verslunareigandi í miðbæ Ísafjarðar, en upplifun þeirra af komum skemmtiferðaskipa til bæjarins er um margt ólík.

Hátt í 90 þátttakendur voru skráðir til leiks á ráðstefnuna, sem var talsvert umfram það sem skipuleggjendur höfðu séð fyrir í upphafi. Fyrirlestrarnir þóttu góð blanda, bæði fjölbreytilegir og fræðandi. Veður setti nokkuð strik í reikninginn seinni ráðstefnudaginn og komust tveir fyrirlesarar ekki leiðar sinnar vestur. Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, brást skjótt við og hljóp í annað skarðið. Hann flutti erindi um viðbragðsáætlanir yfirvalda ef vá ber að höndum, s.s. sóttir og sjávarháski.

Vonir standa til þess að efni ráðstefnunnar geti reynst gagnlegt við mótun stefnu til framtíðar um móttöku skemmtiferðaskipa, bæði á Vestfjörðum og víðar á landinu, en Ísafjarðarbær hefur skipað nefnd sem er að hefja störf og er ætlað að vinna að slíkri stefnumótun.

Glærur upp úr fyrirlestrum ráðstefnunnar verða aðgengilegar á vefsíðu Háskólaseturs Vestfjarða innan tíðar.


Ráðstefnan um skemmtiferðaskip, sem haldin var í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, var afar vel sótt og þótti takast vel.
Ráðstefnan um skemmtiferðaskip, sem haldin var í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, var afar vel sótt og þótti takast vel.