Fjölgun aldraðra og kostnaður samhliða því
Eftir gott sumarfrí hefjast nú Vísindaportin á ný. Fyrsta Vísindaport vetrarins verður í hádeginu föstudaginn 26. september. Þar mun Kristinn H. Gunnarsson fjalla um fjölgun aldraðra á Íslandi og hvaða áhrif það hefur á kostnað við heilbrigðisþjónustu.
Í framhaldi af spá Hagstofu Íslands um þreföldun þeirra sem eru eldri en 65 ára fram til 2060 er reynt að leggja mat á líklega kostnaðaraukningu og ekki síður hvar aukningin muni helst koma fram. Fyrir liggja tölur um þróunina síðustu 30 ár (1980 - 2010). Heilbrigðisþjónustan þrefaldaðist að magni til og tvöfaldaðist að verðmæti til. Heilbrigðisútgjöld voru árið 2012 alls um 154 milljarða króna og hlutur ríkisins í þeim nam um 17% allra ríkisútgjalda. Svo það er ástæða til þess að gera ráð fyrir mikilli aukningu útgjalda.
Athugaðir eru nokkrir þættir sem hafa bein áhrif á kostnaðinn, einkum kostnaður við langtímaumönnun, rekstur sjúkrahúsa og lyfja- og lækniskostnaður. Ennfremur eru athuguð áhrif af hækkandi lífaldri og auknum lífslíkum við 65 ára aldur, hækkandi framfærsluhlutfalli, lágri fæðingartíðni, væntanlegri sjúkdómaþróun, tækniframförum og hagvexti. Það er einkum kostnaður við langtímaumönnum sem talinn er að muni aukast mikið á komandi áratugum. Loks eru reifaðar þær hugmyndir sem helst eru uppi um aðgerðir til þess að lækka fyrirsjáanlegan vaxandi kostnað.
Kristinn H. Gunnarsson lauk BS prófi í stærðfræði frá Háskóla Íslands 1979 og meistaragráðu í stjórnmálafræði frá Háskólanum í Leeds árið 2013.
Vísindaportið er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.