þriðjudagur 11. október 2011

Fjarnámssfréttir

Nú þegar rúmur mánuður er liðinn af skólaárinu 2011-2012 er allt skólastarf komið á fullt og fjarnemar hinna ýmsu menntastofnanna á kafi í skruddum sínum. Í ár eru um 100 nemendur skráðir í fjarnám frá Vestfjörðum við sex háskóla. Lang flestir stunda nám við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Misjafnt er eftir greinum og einstaklingum á hvaða hraða er farið, en aukist hefur að nemendur séu í fullu námi á meðan aðrir stunda nám sitt samhliða starfi.

Háskólasetur Vestfjarða leggur metnað sinn í að þjónusta fjarnema sem best og býður fjarnemum upp á lestraraðstöðu, prentaðstöðu og þeir sem þurfa að sækja tíma í gegnum myndfundabúnað sækja þá í Háskólasetrinu. Jafnframt er aðstaða fyrir nemendur sem vinna saman að verkefnum. Þegar kemur að prófum hefur Háskólasetrið umsjón með fjarprófum háskólanema. Kennslustjórinn vill nota tækifærið og ítreka að mikilvægt er að nemendur gangi úr skugga um að þeir séu skráðir í próf á réttum stað.

Sífellt fleiri möguleikar hafa opnast til fjarnáms á undanförnum árum. Sex háskólar bjóða nú upp á fjarnám og er mikil breydd í námsframboðinu. Ef fólk hefur áhuga til að kynna sér það nám sem er í boði í fjarnámi við háskólana nú í vetur má sjá það hér. Við Háskólasetur Vestfjarða er nú starfandi náms- og starfsráðgjafi. Verið velkomin að kíkja við ef þið viljið nýtja þjónustu hans.

Háskólanám krefst ekki lengur búferlaflutninga
Háskólanám krefst ekki lengur búferlaflutninga