miðvikudagur 8. mars 2017

Fjarnámsmöguleikar á háskólastigi kynntir

Nú fer í hönd sá tími þegar útskriftarnemar í framhaldsskólum landsins gera upp hug sinn varðandi frekara nám. Í því samhengi getur fjarnám á háskólastigi verið vænlegur kostur fyrir þá sem ekki eru reiðubúnir til að flytja að heiman eða geta af öðrum orsökum ekki sótt nám fjarri heimabyggð. Háskólasetur Vestfjarða býður fjölbreytta þjónustu við fjarnemendur og er þessa dagana að kynna hana fyrir verðandi háskólanemum.

Allir háskólar á Íslandi, nema Listaháskólinn, bjóða upp á nám í fjarnámi. Misjafnt er milli skóla hversu stór hluti námsframboðs þeirra er jafnframt kenndur í fjarnámi en þó má segja að landsbyggðaháskólarnir bjóði upp á megnið af sínu námi með fjarnámssniði. Er þar átt við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Hólum, Landbúnaðarháskólann og Háskólann á Bifröst. Háskóli Íslands er með töluverðan fjölda námsleiða og síðan stakra áfanga í fjarnámi og Háskólinn í Reykjavík með nokkrar námsbrautir. Frekari upplýsingar um námsframboð skólanna er að finna á http://www.uw.is/fjarnam/

Háskólasetur Vestfjarða býður fjarnemum upp á lesaðstöðu ásamt net og prentþjónustu. Einnig geta fjarnemar tekið prófin sín í Háskólasetrinu. Hjá Háskólasetri starfar námsráðgjafi og er þeim sem eru að huga að frekara námi, sem og fjarnemum allra háskólanna, velkomið að nýta sér þjónustu hans.

Á morgun munu fulltrúar allra háskóla á Íslandi koma til Ísafjarðar og kynna námsframboð sitt í Menntaskólanum á Ísafirði.  Starfsmenn Háskólaseturs ætla að vera á staðnum og kynna fjarnámsmöguleikana og þjónustuna sem í boði er í Háskólasetrinu. Allir þeir sem vilja bæta við sig þekkingu, og eru að huga að frekari námi í framtíðinni, eru hvattir til að kíkja við í Menntaskólanum á Ísafirði á morgun milli klukkan 11 og 13.


Fjarnemar og nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun ásamt Peter Weiss, forstöðumanni Háskólaseturs og Stefáni B. Sigurðssyni, þáverandi rektor HA, við útskrift á Háskólahátíð á Hrafnseyri á 17. júní 2012.
Fjarnemar og nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun ásamt Peter Weiss, forstöðumanni Háskólaseturs og Stefáni B. Sigurðssyni, þáverandi rektor HA, við útskrift á Háskólahátíð á Hrafnseyri á 17. júní 2012.