þriðjudagur 22. maí 2007

Fjarnám við Háskóla Íslands

Háskóli Íslands býður uppá fjölbreytt fjarnám veturinn 2007-2008, bæði í grunn- og framhaldsnámi. Meðal nýjunga eru tvær nýjar námsleiðir á framhaldsstigi frá félagsvísindadeild. Önnur er diplómanám í hagnýtri jafnréttisfræði og hin diplómanám í áfengis- og vímuefnamálum.

Meðal námsleiða í grunnnámi er enska, íslenska, sagnfræði og þjóðfræði. Á framhaldsstigi er í boði diplóma- og MPA nám í opinberri stjórnsýslu og diplómanám í hjúkrunarfræði. Námskeið bæði á grunn- og framhaldsstigi standa til boða í öldrunarþjónustu á sviði réttarfélags- og öldrunarfélagsráðgjafar (diplómanám) og í bókasafns- og upplýsingafræði. Þessi námskeið eru þverfræðileg og tilvalin fyrir þá sem áhuga hafa á frekara námi eða vilja bæta við sig þekkingu á ólíkum fræðasviðum.

Skipulag námsins er þannig háttað að boðið er uppá fjarfundi tvisvar til þrisvar á misseri þar sem nemendur koma saman á viðkomandi fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum. Nemendur nálgast fyrirlestra, gögn, verkefni, umræðuþræði og tilkynningar á námsumsjónarkerfi á vef. Í sumum námsleiðum koma nemendur saman í Háskóla Íslands en fjarnemar hafa aðgang að fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum þar sem góð náms- og prófaaðstaða er fyrir hendi.

Uppbygging fjarnáms við Háskóla Íslands er í takt við stefnu Háskóla Íslands um að efla fjarnám og efla samstarf við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar víðsvegar á landinu. Umsóknarfrestur fyrir nýnema í fjarnám á haustmisseri 2007 lýkur  5. júní. Upplýsingar um skráningarfrest í framhaldsnám má sjá á vefsíðum deilda. Skráning í fjarnám í framhaldsnámi fer fram frá 25. ágúst til og með 21. september á vefkerfi Háskólans, Uglunni. Nánari upplýsingar er að finna á vef Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands