Fjarnám í hjúkrunarfræði frá HA
Metnaður Háskólaseturs Vestfjarða hefur ávallt verið að bjóða upp á sem fjölbreyttast námsframboð í fjarnámi á háskólastigi. Misjafnt er eftir fögum og skólum hvernig fjarnámi þeirra er hagað og í einstaka greinum er ekki boðið upp á fjarnmám nema á fáa staði í einu. Eitt af þessum fögum er hjúkrunarfræði sem Háskólinn á Akureyri kennir. Fyrsti fjarnámshópurinn var einmitt kenndur til Ísafjarðar fyrir nokkuð mörgum árum síðan og síðan þá hefur ávallt einn hópur verið við nám í einu, það er nýr hópur hefur farið af stað á fjögurra ára fresti.
Fyrir tveimur árum tæplega hóf nýr hópur nám í hjúkrunarfræði og stunda nú þrír nemar námið héðan. En við viljum gera betur og höfum nú gert samkomulag við Háskólann á Akureyri þess efnis að ef 10 aðilar sem uppfylla inntökuskilyrði í hjúkrunarfræðinám óska eftir námsvist í fjarnámi frá Ísafirði, þá verður farið af stað með nýjan hóp strax næsta haust (haustið 2014).
Því eru allir áhugasamir um námið beðnir um að hafa samband við kennslustjóra Háskólaseturs, annað hvort í síma 450-3041 eða á netfanginu kristin@uwestfjords.is.
Áhugasamir um námið í Vesturbyggð eða á Ströndum eru jafnframt beðnir um að hafa samband við kennslustjóra.