miðvikudagur 28. mars 2012

Fjarnám

Langar þig til að læra meira? Ef svarið er já, þá er rétti tíminn núna til að kynna sér það námsframboð sem íslenskir skólar bjóða upp á.

Ef hugurinn stefnir á frekara nám en vilji er til að búa áfram í heimabyggð þá gæti fjarnám hentað þér. Íslenskir háskólar bjóða upp á töluvert námsframboð í fjarnámi, bæði í grunnnámi sem og framhaldsnámi.

Misjafnt er milli námsbrauta hvernig námsfyrirkomulagi er háttað í fjarnáminu. Sumar námsbrautir gera ráð fyrir að nemendur stundi námið eingöngu í gegnum tölvubúnað, aðrar gera ráð fyrir notkun á myndfundabúnaði. Sumar námsbrautir gera þá kröfu til nemenda að þeir mæti í námslotur meðan aðrar gera kröfur um slíkt. Nám er í vissum tilfellum háð því að ákveðinn fjöldi náist í námshópa og ræðst þá staðsetning af myndfundabúnaði og nemendahópi.

Vert er að nefna að ef tilskilinn fjöldi næst hér á Ísafirði, mun fjarnám í hjúkrunarfræði fara af stað næsta haust frá Háskólanum á Akureyri. Mikill áhugi virðist vera á náminu og hafa nú þegar 17 aðilar haft samband við Háskólasetur og lýst yfir áhuga.

Nokkuð svipað námsframboð er í boði næsta vetur og undanfarin ár, en þó er vert að nefna nýja námsbraut frá Háskólanum á Bifröst, en þeir ætla nú að kenna í fjarnámi námsbrautina HHS - Heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði til BA gráðu.

Inn á heimasíðu Háskólaseturs er að finna samantekt á þeim fjarnámsmöguleikum sem íslenskir háskólar bjóða upp á næsta vetur. Hvet ég alla áhugasama um að fara þar inn og skoða námsframboðið og minni um leið á að umsóknarfrestur í framhaldsnám rennur í flestum tilfellum út 15. apríl á meðan umsóknarfrestur í grunnnám rennur út 5. júní.

Í Háskólasetri er góð aðstaða fyrir fjarnema
Í Háskólasetri er góð aðstaða fyrir fjarnema