sunnudagur 6. maí 2012

Fiskveiðiréttindi og fiskveiðistjórnun

Mánudaginn 7. maí mun Katie Auth, meistaranemi í haf- og strandsvæðastjórnun, kynna lokaritgerð sína sem ber titilinn Fishing For Common Ground: Broadening the Definition of ‘Rights-based' Management in Iceland's Westfjords. Kynningin, sem fer fram á ensku, hefst kl. 16:00 í stofu 1-2 í Háskólasetrinu og eru allir velkomnir. Leiðbeinandi Katie er dr. Niels Einarsson, forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar en prófdómari er dr. Gísli Einarsson, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.

Ágrip:
Frá því á níunda áratugnum hefur einkum verið mælt með svokölluðum veiðiréttindakerfum í fiskveiðistjórnun en um þau hefur einnig verið deilt. Þetta á sérstaklega við um kerfi sem hafa verið þróuð með það að markmiði að beita markaðsöflunum til að bregðast við vandamálum tengdum óskilvirkni og ofveiði, með því að skipta upp heildaraflaheimildum í hlutdeildir sem mögulegt er að versla með. Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu hefur verið hampað af ýmsum alþjóðlega sem árangusríkri fyrirmynd þessarar aðferðar. Engu að síður hefur kerfið á Íslandi verið umdeilt og harðvítugar deilur staðið um það í nærri þrjátíu ár, einkum með tilliti til áhrifa kerfisins á byggðaþróun, félagslegt réttlæti og efnahagslega mismunun.

Í ritgerðinni er fyrirbærafræðilegri nálgun beitt, með tíu hálfopnum viðtölum og gagnagreiningu, til að kanna hvernig íbúar á Vestfjörðum skilja sín ‚réttindi‘ í tengslum við fiskveiðistjórnunarkerfið, einkum í samhengi við fjármálakreppunna 2008. Í viðtölunum ræddu viðmælendur skilning sinn á ‚réttindum‘ í víðu samhengi, sem sjaldnast er tekið tillit til í þróun fiskveiðistjórnkerfa, ekki síst réttinn til að stjórna eigin örlögum („fate-control"). Umræðurnar um fiskveiðistjórnunarkerfið, sem byggir á veiðiréttindum, endurspegla dýpri vandamál sem tengjast sjálfsmynd, ótta við breytingar, lýðræðisleg gildi og sjálfsyfirráð (sense of personal agency).

Katie Auth, meistaranemi í haf- og strandsvæðastjórnun, kynna lokaritgerð sína mánudaginn 7. maí.
Katie Auth, meistaranemi í haf- og strandsvæðastjórnun, kynna lokaritgerð sína mánudaginn 7. maí.