Fiskeldi mikilvægur hluti af próteinforða mannkyns til framtíðar
Einn af fremstu sérfræðingum heims á sviði fiskeldis og sjálfbærni, doktor Barry Costa-Pierce, hélt á mánudag erindi í Háskólasetri Vestfjarða. Þar fjallaði hann um þá áskorun mannkyns að framleiða næga fæðu fyrir sífellt fleiri jarðarbúa og mikilvægi fiskeldis í sjó í því samhengi. Erindið var vel sótt, jafnt af fulltrúum fyrirtækja og stofnana á svæðinu sem meistaranemum í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið.
Í erindi sínu benti Costa-Pierce á að fiskeldi ætti sér mörg þúsund ára sögu sem mikilvægur liður í fæðuframleiðslu, ekki síst í Asíu þar sem þorri fiskeldis heimsins fer fram í dag. Hann benti jafnframt á að landrými og aðgengi að ferskvatni, fyrir hefðbundinn landbúnað og fiskeldi á landi, er af skornum skammti í heiminum og dugir ekki til að standa undir þeirri fólksfjölgun sem er fyrirsjáanleg. Í ljósi hennar verður fiskeldi í sjó sífellt mikilvægara við framleiðslu á nauðsynlegu próteini til manneldis.
Við uppbyggingu og þróun í fiskeldi segir Costa-Pierce mikilvægt að byggja á þekkingu og reynslu heimamanna og yfirfæra staðbundna þekkingu til lausnar á verkefnum á heimsvísu. Einnig bendir hann á að þar sem best hafi tekist til við uppbyggingu í fiskeldi í heiminum hefði náðst svokallaður samfélagssáttmáli (social contract) þar sem hagsmunaaðilar hafa unnið saman og náð sameiginlegri niðurstöðu um útfærslu ýmissa álitamála.
Costa-Pierce er prófessor í sjávarlíffræði og forstöðumaður Miðstöðvar sjávarlíffræði við University of New England í Maine í Bandaríkjunum. Hans helstu viðfangsefni lúta að hagkerfi sjávarafurða og sjálfbærni innan greinarinnar. Hann hefur sinnt ráðgjöf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og stundað rannsóknir og ráðgjöf á sviði sjávarlíffræði víða um veröld, m.a. í Afríku, við Kyrrahafsströnd Asíu og í Rómönsku Ameríku. Hann vinnur nú m.a. að verkefnum á sviði sjávarafurða og sjálfbærni í Svíþjóð og einnig hér á landi í samstarfi við Íslenska sjávarklasann.
Costa-Pierce er staddur á Íslandi í tengslum við Arctic Circle ráðstefnuna sem fram fer í Reykjavík um helgina en í aðdraganda hennar heimsótti hann Vestfirði og fundaði m.a. með forsvarsmönnum Háskólaseturs Vestfjarða ásamt því að flytja fyrirlestur sinn.