miðvikudagur 5. september 2012

Fimmti árgangur meistaranema að hefja nám

Kennsla hófst mánudaginn 3. september í fyrsta námskeiði skólaársins í haf- og strandsvæðastjórnun. Nemendur eru 21 og koma víðs vegar að, en allir þó frá löndum Evrópu og N-Ameríku. Auk þeirra koma tveir skiptinemar frá Van Hall Larenstein skólanum í Hollandi, en áður hafa fimm nemendur komið þaðan í eina eða tvær annir í senn. Hópurinn í ár er fjölbreyttur; yngsti meistaraneminn er 21 árs en sá elsti á sextugsaldri.

Fyrsta námskeið vetrarins fjallar um umhverfi og auðlindir Íslands, sem og helstu ágreiningsmál sem upp hafa komið síðastliðinn áratug varðandi nýtingu og/eða verndun þeirra. Kennari námskeiðsins er Georg Haney, en hann kenndi sama námskeið í fyrra. Vel hefur mælst fyrir að hefja námið á málstofu um íslensk málefni og hefur það aukið skilning nemenda, sem flestir eru erlendir, á aðstæðum hérlendis.

Auk setu í námskeiðinu hafa nemendur einnig setið málstofu á ráðstefnu PEMABO um orku og samfélög.

Á næstu dögum heldur hópurinn af stað í tveggja daga vettvangsferð um sunnanverða Vestfirði þar sem ætlunin er að kynnast umhverfi, auðlindum, samgöngum og ekki síst rannsóknatækifærum svæðisins.

Meistaranemar í haf- og strandsvæðastjórnun veturinn 2012-2013
Meistaranemar í haf- og strandsvæðastjórnun veturinn 2012-2013